Innlent

Sumar upplýsingar lögreglu viðkvæmar

Snærós Sindradóttir skrifar
Nichole Leigh Mosty, varaformaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Nichole Leigh Mosty, varaformaður allsherjar- og menntamálanefndar. Vísir/Stefán
„Þetta var bara góður fundur. Þessi fundur hefði bara mátt eiga sér stað fyrr. Það kom fram skýr ósk frá ríkislögreglustjóra um að við myndum oftar funda svo betri upplýsingagjöf okkar á milli væri til staðar,“ segir Nichole Leigh Mosty, varaformaður allsherjar- og menntamálanefndar og þingmaður Bjartrar framtíðar.

Í gær hélt þingnefndin fund með Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra og Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem vopnaburður lögreglunnar var ræddur en ríkislögreglustjóri hefur ákveðið að vopnaðir sérsveitarmenn séu í viðbragðsstöðu á fjöldasamkomum miðbæjarins í sumar.

„Það var mikið rætt um traust og upplýsingagjöf. Ekki eingöngu upplýsingagjöf fyrir þing og borgaryfirvöld heldur líka hvernig við upplýsum almenning svo almenningi þurfi ekki að líða illa yfir þessari ákvörðun og viti að hér er bara um að ræða ákvörðun til að vernda öryggi borgaranna,“ segir Nichole.  

Möguleg hryðjuverkaógn kom einnig til tals á fundinum.

„Það eru ákveðnar upplýsingar sem um ríkir mikill trúnaður en var ekki hægt að veita. Manstu eftir myndinni með Jack Nicholson og Tom Cruise? You can’t handle the truth [A few good men]. það eru ákveðnar upplýsingar sem við þurfum að treysta lögreglu fyrir. Þetta er svo vandmeðfarið, þessi þunna lína um hvaða upplýsingar við fáum og hvað við megum ekki vita,“ segir Nichole Leigh Mosty.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×