Innlent

Ráðherra felur LEX málið

Sæunn Gísladóttir skrifar
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra. Vísir/Anton Brink

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hefur falið LEX lögmannsstofu að verja íslenska ríkið í Landsréttarmáli Ástráðs Haraldssonar.

Sigríður starfaði hjá lögmannsstofunni sem héraðsdómslögmaður árin 2007 til 2015. Hún tók sæti á Alþingi árið 2015.
Guðjón Ármannsson mun hafa yfirumsjón með málinu fyrir hönd LEX.

Ástráður höfðar mál gegn ríkinu vegna embættisfærslu dómsmálaráðherra er ákveðið var að fara á svig við tillögu dómnefndar um hæfi dómara í Landsrétt og velja þess í stað fjóra úr hópi þeirra sem síður þóttu hæfir. Íslenska ríkið hefur frest til 3. júlí til að skila inn greinargerð vegna stefnunnar.

Hefð er fyrir því að ríkislögmaður reki mál sem þessi fyrir hönd ríkisins. Í þessu tilfelli er ríkislögmaður þó vanhæfur sökum tengsla við kærandann og þess að starfsmenn innan embættisins voru í hópi umsækjenda um stöðu Landsréttardómara. Embættið hefur heimild til að útvista málum og það er gert samkvæmt lögum með samþykki viðkomandi stofnunar og er þá haft samráð við ráðuneytið.

Ítrekað var reynt að ná sambandi við Sigríði Á. Andersen, dómsmálaráðherra, við vinnslu fréttarinnar án árangurs.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira