Íslenski boltinn

Fékk fyrirmæli um að tala illa um Bubalo

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ásmundur tók við Fram eftir tímabilið 2015.
Ásmundur tók við Fram eftir tímabilið 2015. vísir/eyþór
Ásmundur Arnarsson, fyrrverandi þjálfari Fram, segir að stjórn félagsins hafi sagt sér að tala illa um leikmann liðsins eftir leik gegn Fylki í síðustu umferð Inkasso-deildarinnar.

Ásmundur greindi frá þessu í samtali við mbl.is í kvöld. Þar segir hann einnig að stjórn Fram hafi verið ósátt með árangur og frammistöðu liðsins og því ákveðið að láta Ásmund fara.

„Ég er boðaður á fund í dag og þar er mér tjáð af stjórninni að árangurinn og frammistaða væri óásættanleg og að vilji stjórnar sé að gera breytingu á þjálfaramálum,“ sagði Ásmundur við mbl.is.

Fram tapaði síðustu tveimur leikjum sínum undir stjórn Ásmundar. Eftir seinna tapið, fyrir Fylki, sendi Ásmundur Ivan Bubalo, markahæsta manni Fram, tóninn. Ásmundur segir að hann hafi fengið fyrirmæli þess efnis frá stjórn Fram.

„Það viðtal var eftir fund með stjórninni. Vilji stjórnar var að það kæmi skýrt fram að við værum óánægðir með hann og framkomu hans. Þar er ég einfaldlega að framkvæma hlut sem var ákveðinn af stjórn,“ sagði Ásmundur sem skilur við Fram í 5. sæti Inkasso-deildarinnar.

Næsti leikur Fram er gegn Gróttu á fimmtudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×