Skoðun

Fyrir tíu árum

Siv Friðleifsdóttir skrifar
Hinn 1. júní 2007 fyrir 10 árum komu til framkvæmda ný lög sem Alþingi hafði samþykkt árinu fyrr. Með lögunum varð, til allra heilla, óheimilt að reykja á veitinga- og skemmtistöðum. Undirrituð lagði fram frumvarp um slíkt bann í febrúar 2005 sem þingmannafrumvarp og fékk viðurnefnið banndrottningin á göngum þingsins. Meðflutningsmenn voru Ásta R. Jóhannesdóttir, Jónína Bjartmarz og Þuríður Backman. Náði málið ekki fram að ganga en umræðan um það var mikilvæg og upplýsandi. Jón Kristjánsson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, lagði sambærilegt mál fram í desember 2005 og þá sem stjórnarfrumvarp. Var það samþykkt á Alþingi ári seinna. Þorri þingmanna studdi málið að lokum. Þrír greiddu þó atkvæði á móti.

Talsverð barátta var í aðdraganda málsins á þessum árum milli bannsinna og hinna. Þar tókust á sjónarmið frelsis og lýðheilsu. Svipuð sjónarmið og nú takast á um hvort afleggja eigi rekstur ríkisins á áfengissölu eða ekki. Meginmarkmið banns við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum var að vernda starfsmenn með vísan til vinnuverndarlaga og að vernda almenning með vísan til vaxandi fjölda vísindalegra sannana fyrir heilsuskaða óbeinna reykinga. Þarna var því um að ræða bann til verndar þriðja aðila fyrir óbeinum reykingum, þ.e. starfsmanna og almennings, en í minni mæli bann til verndunar þeim sem reykti.

Sömu sjónarmið eru nú uppi í andstöðunni við aukið aðgengi að áfengi og þar með neyslu. Þar ber að vernda þriðja aðila sem mest. Hér er um að ræða þá aðila sem helst mega þola neikvæðar félagslegar afleiðingar aukinnar áfengisneyslu, börnin og ungmennin. Vonandi ber okkur Íslendingum gæfa til þess að fara að ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í þessum efnum. Fyrir rúmlega 10 árum þótti ekki sjálfgefið að leggja af þann ósið að reykja á veitinga- og skemmtistöðum. Alþingi tók hins vegar rétta ákvörðun í ljósi upplýsinga um skaðsemi óbeinna reykinga. Síðan þá hefur stuðningurinn við reykleysið fest sig í sessi. Nú tíu árum seinna vill enginn ganga til baka til fyrra fyrirkomulags. Bönn til verndar lýðheilsu eru því réttmæt.

 

Höfundur er fyrrverandi alþingismaður.




Skoðun

Sjá meira


×