Skoðun

Lancet-listinn og frjálshyggja

Guðmundur Edgarsson skrifar
Nú hamast félagshyggjufólk í landinu við að bauna því á frjálshyggjumenn að á lista Lancet yfir stöðu heilbrigðisþjónustu eftir löndum séu ríkisrekin heilbrigðiskerfi í efstu sætunum. Sérstaklega er bent á að Bandaríkin raðist mun neðar en mörg önnur vestræn ríki og að það sé til merkis um að einkarekstur í heilbrigðisþjónustu skili lakari árangri en opinber rekstur. Hvað segir frjálshyggjufólk við þessu?

Æ meiri ríkisrekstur í Bandaríkjunum

Þannig er að heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum er ekki einkarekið í neinum eðlilegum skilningi. Hlutur ríkisins í heildarkostnaði heilbrigðisþjónustunnar þar í landi er nefnilega kominn upp í 50% samkvæmt OECD. Á fyrri hluta síðustu aldar var þetta hlutfall um 20% en nú er svo komið að meðal Bandaríkjamaðurinn borgar hærri skatta til heilbrigðiskerfisins en meðal Norðurlandabúinn! Skýringin á hinu dýra og gloppótta heilbrigðiskerfi í Bandaríkjunum á því rætur að rekja til aukinnar miðstýringar og ríkisafskipta, ekki frjáls markaðar. Svo er rétt að árétta að hvergi í heiminum er að finna einkarekið heilbrigðiskerfi á markaðslegum forsendum. Hins vegar má benda á tvö önnur ríki á lista Lancet þar sem einkarekstur er umtalsverður hluti af heilbrigðiskerfinu, þ.e. lágskattaríkin Sviss og Singapúr. Bæði þessi lönd raðast mun ofar á listann, Sviss í 3. sæti og Singapúr í 21. sæti (af um 200) og í báðum ríkjunum kostar heilbrigðiskerfið mun minna en í Bandaríkjunum auk þess sem gæðin eru meiri samkvæmt Lancet.

Singapúr kemst næst því að vera með einkarekið heilbrigðiskerfi. Kostnaðarþátttaka sjúklinga er veruleg fyrir væg tilfelli og smærri aðgerðir en ríkið borgar brúsann vegna alvarlegra sjúkdóma. Þetta módel hefur skilað Singapúringum heimsklassa heilbrigðiskerfi en fyrir helmingi minni kostnað en hjá öðrum þróuðum ríkjum. Það er því langsótt að túlka Lancet-listann sem vísbendingu um ókosti einkarekinnar heilbrigðisþjónustu. Undir miðstýrðu einokunarkerfi er hætt við óhagkvæmni og löngum biðlistum. Þar sem fjölbreytni og samkeppni ríkir næst hins vegar hagkvæmasta blandan af gæðum og kostnaðaraðhaldi. Skattaparadísin Singapúr er skýrt dæmi um það.

 

Höfundur er kennari.




Skoðun

Sjá meira


×