Körfubolti

Baldur: Þetta eru ótrúleg sóknarlið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Baldur Beck, NBA-sérfræðingur Stöðvar 2 Sport.
Baldur Beck, NBA-sérfræðingur Stöðvar 2 Sport.
Úrslitin í NBA-deildinni hefjast í nótt þegar Golden State Warriors tekur á móti meisturum Cleveland Cavaliers í fyrstu rimmu liðanna.

Þetta er þriðja árið í röð sem þessi lið mætast í úrslitum. Cleveland vann í fyrra og Golden State árið þar á undan.

Óhætt er að segja að þessu tvö lið séu í sérflokki í deildinni. Cleveland er búið að tapa einum leik í úrslitakeppninni til þessa en Golden State engum.

Cleveland var 3-1 undir í rimmunni í fyrra en átti sögulega endurkomu og vann einvígið, 4-3. Því hefur enginn í herbúðum Golden State gleymt.

„Golden State er sterkara liðið á pappírnum. Heilsteyptara lið og betra varnarlið en Cleveland,“ segir körfuboltasérfræðingurinn Baldur Beck en hann mun lýsa úrslitarimmunni á Stöð 2 Sport.

„Bæði lið eru með betri sóknarliðum sem hafa verið sett saman í körfubolta. Þetta eru ótrúleg sóknarlið. Í mínum huga þá þarf Cleveland að eiga alveg toppseríu til þess að vinna einvígið. Ég er ekki viss um að þeir hafi það sem til þarf. Þetta snýst svolítið um hvort Cleveland tekst að stýra hraðanum í leikjunum eins og liðið gerði er það vann titilinn í fyrra.“

Baldur hefur lengi fylgst með NBA og sefur vart á næturnar af spenningi fyrir þessu einvígi.

„Maður er bara eins og krakki í nammibúð þar sem allt er ókeypis. Það er ofurstjarna í hverju horni í þessu einvígi.“

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×