Viðskipti innlent

Vilja styrkja starfsemi í Kína

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Hannes Smárason var skipaður forstjóri WuXi NextCODE fyrr á árinu, en félagið er afsprengi Íslenskrar erfðagreiningar.
Hannes Smárason var skipaður forstjóri WuXi NextCODE fyrr á árinu, en félagið er afsprengi Íslenskrar erfðagreiningar. vísir/heiða
Stjórnendur líftæknifélagsins WuXi NextCODE funda um þessar mundir með mögulegum fjárfestum, en heimildir Reuters herma að fjárfestingarsjóðirnir Hillhouse Capital og Sequoia Capital hafi sýnt áhuga á að fjárfesta í félaginu, sem Hannes Smárason stýrir. Vonast er til að fjármögnuninni ljúki í júlí.

WuXi NextCODE lauk 75 milljóna dala fjármögnun í byrjun síðasta mánaðar. Sjóðirnir Temasek, sem er í eigu singapúrska ríkisins, og Yunfeng Capital, sem er í eigu Jacks Ma, stofnanda Alibaba, lögðu m.a. félaginu til 75 milljónir dala, um 7,4 milljarða króna. Þess má geta að Temasek er stór hluthafi í Alvogen, lyfjafyrirtæki Róberts Wessman. Sjóður á vegum Amgen, bandaríska lyfjarisans sem keypti Íslenska erfðagreiningu 2012, tók líka þátt í fjármögnuninni.

Fjármögnuninni er ætlað að skjóta styrkari stoðum undir starfsemi félagsins á alþjóðavísu, sérstaklega í Kína, þar sem líftæknigeirinn vex hratt. Sjálfur hefur Hannes sagt að félagið geti orðið leiðandi í heiminum á sínu sviði.

Hannes var ráðinn forstjóri WuXi NextCODE í mars. Áður hafði hann setið í yfirstjórn félagsins. Hann kom að stofnun NextCODE, dótturfélags Íslenskrar erfðagreiningar, 2013, en félagið seldi sjúkdómsgreiningar til lækna og sjúkrahúsa í Bandaríkjunum. Líftæknirisinn WuXi AppTec keypti NextCODE á 8,5 milljarða króna í byrjun árs 2015 og í kjölfarið sameinaðist félagið öðru líftæknifélagi, WuXi Genome Center, og til varð WuXi NextCODE. Félagið starfrækir skrifstofur í Sjanghaí, Bandaríkjunum og Reykjavík. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×