Viðskipti innlent

Velta Costco meiri en Bónuss

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Upplýsingar benda til þess að veltan í Costco hafi verið meiri en í verslunum Bónuss samanlagt fyrstu dagana eftir opnun Costco.
Upplýsingar benda til þess að veltan í Costco hafi verið meiri en í verslunum Bónuss samanlagt fyrstu dagana eftir opnun Costco. vísir/anton brink
Vísbendingar eru um að velta í Costco hafi verið meiri en velta Bónuss fyrstu daga eftir opnun verslunarinnar, samkvæmt tölum Meniga. Þær upplýsingar byggja á kortaveltu. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins var veltan í Costco 32 prósent af heildarveltunni á dagvörumarkaði á fyrstu dögum eftir opnun en markaðshlutdeild Bónuss var 28 prósent. Meniga hefur ekki viljað gera tölurnar opinberar í ljósi þess að enn á eftir að fullvinna upplýsingarnar. Þetta er mun meiri markaðshlutdeild en keppinautar Bónuss og Krónunnar á markaðnum hafa hingað til haft.

Tölurnar eru eftirtektarverðar í ljósi þess að Bónus rekur 32 verslanir um allt land, þar af 20 á höfuðborgarsvæðinu. Costco rekur hins vegar eina verslun í Kauptúni í Garðabæ. Á hinn bóginn selur Costco meira en bara dagvöru. Það eru oft vörur sem kosta tugi þúsunda. Verslanirnar eru því ekki að öllu leyti sambærilegar. Tölurnar benda engu að síður til aukinnar samkeppni á dagvörumarkaði með opnun Costco.

Samkeppniseftirlitið gaf út skýrslu um samkeppni á dagvörumarkaði árið 2015. Þar er vakin athygli á að ójöfn kjör verslana hjá birgjum kynnu að hindra samkeppni á lágvöruverðsmarkaði. Nokkrir nýir aðilar hafi náð að hasla sér völl á dagvörumarkaði og samkeppni því aukist. Þar er vísað til þess að verslanakeðjan 10-11 var seld frá Högum árið 2011 og til varð sjálfstæð eining sem sameinaðist síðan Iceland verslununum. Að auki voru verslanirnar Kostur og Víðir settar á fót.

„Ef umræddar verslanir (og hugsanlega fleiri keppinautar) eiga að hafa raunhæfa möguleika á að hasla sér völl á lágvörumarkaði fyrir dagvörur er nauðsynlegt að birgjar jafni kjör verslana nema þeir geti sýnt fram á að hlutlægar ástæður réttlæti mismunandi kjör. Að mati Samkeppniseftirlitsins er mikið verk óunnið í þessu sambandi,“ segir í skýrslunni.

Fullyrt var í Viðskiptablaðinu í gær að Hagar hefðu sent íslenskum framleiðendum skilaboð um að ef þeir hygðust selja vörur sínar í Costco yrðu þær teknar úr hillum Bónuss og Hagkaupa. Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir þessar fullyrðingar vera rógburð. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×