Enski boltinn

Liklegt að fyrstu sumarkaup Manchester United verði á 22 ára gömlum Svía

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Victor Lindelöf.
Victor Lindelöf. Vísir/Getty
Manchester United ætlar að hefja verslunarleiðangur sinn í sumar með því að kaupa sænskan miðvörð frá Benfica. Þetta fullyrðir portúgalska blaðið Record.

Record segir frá því að Evrópudeildarmeistararnir ætli að kaupa hinn 22 ára gamla Victor Lindelöf á 33 milljónir punda eða 4,2 milljarða íslenskra króna.

Lindelöf hefur verið orðaður við Manchester United síðasta árið og koma fréttirnar því ekki mikið á óvart.

Manchester United vann sér sæti í Meistaradeildinni á nýjan leik með sigri á Ajax í úrslitaleik Evrópudeildarinnar á dögunum en United ætlar að eyða háum upphæðum í nýja leikmenn í sumar.

Victor Lindelöf kom til Benfica í desember 2011 þá aðeins sautján ára gamall en hann er fæddur í júlí 1994. Lindelöf spilaði fyrst með unglingaliði portúgalska félagsins en hefur verið með aðalliðinu undanfarnar tvær leiktíðir.

Lindelöf hefur orðið portúgalskur meistari með Benfica síðustu þrjú ár en liðið vann tvöfalt í vetur.

Lindelöf spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir Svía 2016 en hann á að baki ellefu landsleiki og var í EM-hópi liðsins í Frakklandi fyrir ári síðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×