Tónlist

Joey Christ, Aron Can, Herra Hnetusmjör og Birnir: Tóku upp myndbandið í Costco

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Joey segist hafa verið að leita nýrra leiða til að upplifa Costco við gerð myndbandsins.
Joey segist hafa verið að leita nýrra leiða til að upplifa Costco við gerð myndbandsins. Vísir/Eyþór
„Því að það eru allir í Costco, maður! Mér fannst það bara liggja beint við. Við vorum þarna að fikta í einhverjum ostum, kíktum aðeins inn í kælinn og apótekið – við vorum að leita að nýrri leið til að upplifa búðina. Síðan eru svo ógeðslega margir í Costco þannig að það er fínt að vera með skemmtiatriði þarna,“ segir Joey Christ eða Jóhann Kristófer Stefánsson, eins og mamma hans kallar hann alltaf, en hann var að gefa út glænýtt myndband við lagið Joey Cypher.

Lagið er stútfull af góðum gestum en með honum í laginu og myndbandinu eru þeir Birnir, Herra Hnetusmjör og Aron Can en eins og alþjóð veit hafa þessir menn allir verið að gera það gott í rappbransanum upp á síðkastið. Myndbandið var tekið upp í versluninni Costco – sem hefur verið töluvert á milli tannanna á fólki síðustu tvær vikurnar eins og vonandi hefur ekki farið fram hjá neinum.

Var ekkert verið að skammast í ykkur fyrir að vera með einhvern fíflagang þarna í versluninni?

„Nei, nei, við vorum bara beðnir að hætta að veipa, það var alveg sjálfsagt mál. Það tóku þessu allir furðu vel, ég bjóst einhvern veginn við að þetta yrði meira vesen en það svo varð.“

Þetta lag verður á mixteipinu þínu sem fer að koma út – hvenær getum við átt von á því?

„Það kemur í júní. Það verður hellingur af gestum á þessu – kannski ekki allir, en þeir sem hafa virkilega verið „poppin“ undanfarið verða þarna til staðar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×