Viðskipti innlent

Bein áhrif ferðaþjónustunnar jákvæð um 39 milljarða

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Gert er ráð fyrir að 2,3 milljónir muni sækja Ísland heim á þessu ári.
Gert er ráð fyrir að 2,3 milljónir muni sækja Ísland heim á þessu ári. vísir/anton brink
Bein áhrif ferðaþjónustunnar á tekjur ríkis og sveitarfélaga árið 2015 voru jákvæð um 39 milljarða og ætla má að óbeinu áhrifin séu mikil. Þetta kemur fram í greiningu sem gerð var fyrir Stjórnstöð ferðamála og var kynnt í dag.

Bein áhrif ferðamanna á tekjur og gjöld ríkissjóðs voru jákvæð um 28 milljarða og að auki voru bein áhrif á tekjur og gjöld sveitarfélaga jákvæð um 11 milljarða króna.

Þá er áætlað er að ferðamenn hafi greitt 25 milljarða í virðisaukaskatt árið 2015, en rétt er að benda á að stór hluti ferðaþjónustunnar fór ekki í lægra þrep virðisaukaskattkerfisins fyrr en 2016. Er því gert ráð fyrir að erlendir ferðamenn hafi síðan þá greitt mun hærri upphæð í virðisaukaskatt en sem nemur 25 milljörðunum.

Ásgeir Jónsson hagfræðingur furðar sig á því hve litlu fjármagni hafi verið varið í uppbyggingu innviða. „Á undanförnum árum má segja að hið opinbera hafi fengið hádegisverðinn ókeypis, ef svo má að orði komast, þar sem ferðaþjónustan hefur aflað gríðarlegra tekna á sama tíma og litlu hefur verið varið í uppbyggingu innviða,“ segir Ásgeir í tilkynningu.

Greiningin tekur sem fyrr segir til ársins 2015 en þá komu 1,3 milljónir ferðamanna til Íslands. Gert er ráð fyrir að fjöldinn fari í 2,3 milljónir á þessu ári. Ferðamönnum fjölgaði um 40 prósent milli áranna 2015 og 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×