Viðskipti innlent

Afar veikar forsendur til málshöfðunar

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra segir forsendur aflandskrónueigenda til málshöfðunar veikar.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra segir forsendur aflandskrónueigenda til málshöfðunar veikar. vísir/vilhelm
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra telur forsendur þeirra fjárfesta sem tóku þátt í aflands­krónuútboði Seðlabankans síðasta sumar til þess að höfða skaðabótamál á hendur ríkinu afar veikar. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn Björns Vals Gíslasonar, varaþingmanns VG.

Aflandskrónueigendur skiptu krónum í erlendan gjaldeyri á genginu 190 krónur á evru í útboðinu. Í mars var greint frá því að Seðlabankinn hefði samið við þá eigendur aflandskróna sem kusu ekki að taka þátt í útboðinu um kaup á krónueignum þeirra á genginu 137,5 krónur á evru eða á 37 prósent betri kjörum.

Ráðherra tekur fram að þátttaka í aflandskrónuútboðinu hafi verið valfrjáls. „Þessir valkostir og fyrirsjáanleiki í málinu gera að verkum að afar veikar forsendur eru til að höfða mál til greiðslu bóta vegna þess sem síðar var gert eða sagt í afnámsferlinu, enda hefur aldrei legið fyrir nein staðfesting á því að þeir aflandskrónueigendur sem ekki tóku þátt í útboðinu í júní 2016 myndu síðar í afnámsferlinu verða leystir undan sínum takmörkunum á verri kjörum en þeim sem boðin voru sumarið 2016.“

Þá er tekið fram að verðið í útboðinu í júní 2016 hafi miðast við að gjaldeyrisforði Seðlabankans dygði til að kaupa allar útistandandi af­lands­krónueignir án þess að forðinn færi niður fyrir 150% af svokölluðu RAM-viðmiði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ráðherra bendir á að ef aflandskrónurnar hefðu verið keyptar á genginu 165 krónur gagnvart evru, eins og Björn Valur spurði um, hefði forðinn farið niður fyrir viðmiðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×