Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍA - Breiðablik 2-3 | Þriðji sigur Blika í röð

Elías Orri Njarðarson skrifar
Oliver Sigurjónsson og Andri Rafn Yeoman.
Oliver Sigurjónsson og Andri Rafn Yeoman. Vísir/Stefán
Leikmenn Breiðabliks sóttu þrjú dýrmæt stig á Akranesi í kvöld og unnu þar með sinn þriðja sigur í röð í Pepsi-deildinni. Breiðablik er þar með komin með níu stig í deildinni en ÍA er í heldur slæmum málum með þrjú stig í ellefta og næstneðsta sæti.

Eftir rólega byrjun kom Gísli Eyjólfsson Breiðabliki yfir strax á 6. mínútu leiksins eftir flott samspil milli manna sem endaði með sendingu frá Höskuldi Gunnlaugssyni á Gísla sem kláraði vel.

Beint eftir að leikmenn ÍA tóku miðjuna töpuðu þeir strax boltanum og leikmenn Breiðabliks keyrðu upp í sókn og juku forskot sitt enn frekar þegar Arnþór Ari Atlason skoraði snyrtilegt mark eftir sendingu frá Martin Lund Pedersen.

Leikurinn jafnaðist síðan aðeins út þegar leið á fyrri hálfleikinn og bæði lið fengu færi til þess að skora. Þeim tókst það hinsvegar ekki og leikar stóðu 0-2 í hálfleik gestunum í vil.

Eftir um rúmlega ellefu mínútna leik í síðari hálfleik bætti Arnþór Ari öðru marki sínu og þriðja marki Breiðabliks við eftir að Rashid Yussuff, leikmaður ÍA, hafði varið á marklínu og Arnþór Ari var fyrstur að átta sig og setti boltann í netið.

Skagamenn tóku miðju eftir markið og brunuðu upp í sókn og svöruðu svo strax fyrir sig þegar Þórður Þ. Þórðarson skoraði fyrir ÍA.  

Það var ekki fyrr en á 92. mínútu þegar Arnar Már Guðjónsson klóraði í bakkann fyrir Skagamenn og skoraði þá annað mark ÍA. Því miður fyrir það flautaði frábær dómari leiksins til leiksloka og Breiðablik tóku þrjú stig í mjög skemmtilegum fótboltaleik.

Af hverju vann Breiðablik?

Liðsheildin sjálf skóp þennan sigur hjá Blikum í kvöld. Vörnin,miðjan og sóknin sinntu öll sínum hlutverkum vel í leiknum. Blikarnir keyrðu upp hraðann snemma í fyrri hálfleik, þegar rólegt var búið að vera í leiknum, sem skilaði tveimur mörkum.

Hverjir stóðu upp úr?

Arnþór Ari átt stórkostlegan leik á miðjunni hjá Breiðablik í kvöld. Hann skoraði tvö mörk í leiknum og lagði upp aragrúa af færum fyrir liðsfélagana sína. Hljóp mikið og barðist eins og ljón.

Martin Lund Pedersen átti sömuleiðis góðan leik. Hann var alltaf hættulegur fram á við og hann var duglegur að koma sér í góðar stöður í leiknum með hraða sínum og tækni.

Hjá Skagamönnum var Tryggvi Hrafn Haraldsson bestur í kvöld. Hann hljóp mikið og var mjög duglegur að djöflast í varnarmönnum Blika. Hann kom sér í nokkur góð færi í leiknum en náði því miður ekki að nýta þau.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur ÍA var það sem gekk illa í kvöld. Þeir fengu tvö mörk beint í andlitið eftir stuttan leik eftir mikinn sofandahátt í vörninni. Þeir voru oft á tíðum spilaðir í sundur með einföldu þríhyrningaspili hjá Blikum.

Færanýting hjá báðum liðum. Þrátt fyrir að það komu fimm mörk hér á Norðurálsvellinum í kvöld var færanýtingin ekki góð. Bæði lið hefðu getað skorað fleiri mörk heldur en komu.

Einkunnir leikmanna

ÍA (4-5-1): Ingvar Þór Kale 4 - Hilmar Halldórsson 4, Gylfi Veigar Gylfason 4, Arnór Snær Guðmundsson 5, Rashid Yussuff 4 - Þórður Þorsteinn Þórðarson 6, Arnar Már Guðjónsson 5, Robert Jerzy Menzel 5 (59. Steinar Þorsteinsson 5), Albert Hafsteinsson 6, Ólafur Valur Valdimarsson 5 (59. Stefán Teitur Þórðarson 5) - Tryggvi Hrafn Haraldsson 6.

Breiðablik (4-3-3): Gunnleifur Vignir Gunnleifsson 5 - Guðmundur Friðriksson 5 (62. Aron Bjarnason 5), Michee Efete 5, Damir Muminovic 5, Davíð Kristján Ólafsson 6 - *Arnþór Ari Atlason 9, Gísli Eyjólfsson 7, Andri Rafn Yeoman 6 (81. Ernir Bjarnason -) - Martin Lund Pedersen 8, Höskuldur Gunnlaugsson 6, Hrvoje Tokic 7 (70. Viktor Örn Margeirsson 5).

Milos: Við komum hér til þess að sækja þrjú stig

Milos Milojevic var sáttur við 2-3 sigur sinna manna á Norðurálsvellinum á Akranesi í kvöld. Breiðablik skoruðu tvö mörk með stuttu millibili snemma í fyrri hálfleik og komu Skagamönnum í erfiða stöðu.

„Ég er virkilega sáttur, sérstaklega með byrjunina og hvernig við spiluðum og héldum boltanum. Við komum hér til þess að sækja þrjú stig og ég er ánægður með það,” sagði Milos.

Milos er nýlega tekinn við stjórnvölin hjá Blikum og hefur hann stýrt þeim til sigurs í tveimur leikjum. Hann segir að það sé áfram planið að sækja þrjú stig í hverjum leik.

„Það er planið, við þurfum samt að fara út á æfingvöll og halda áfram að laga það sem þarf að laga en engu að síður eru gæði í liðinu og næsti leikur er eftir níu daga þannig að við höfum nægan tíma til þess að fara út að æfa,” sagði Milos Milojevic þjálfari Breiðabliks.

Gunnlaugur: Mættum ekki til leiks hér í kvöld

Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, var að vonum hundsvekktur með leikslokum eftir tap gegn Breiðabliki á heimavelli í kvöld. En ÍA vann ÍBV 1-4 á útivelli í seinustu umferð.

„Ég er virkilega svekktur með liðið. Við ætluðum einmitt að byggja á þessum fína sigri í Eyjum. Þar var frábært „team-spirit”, virkilega sterk liðsheild og við vorum mjög þéttir til baka en við erum ekki mættir til leiks hér í kvöld. Það er 2-0 eftir 6 mínútur og það er óafsakanlegt,” sagði Gunnlaugur.

Skagamenn fengu þó sín færi í leiknum og hefðu auðveldlega getað snúið leiknum við í fyrri hálfleik.

„Þrátt fyrir að við eigum þennan slaka leik, þá eigum við urmul færa til þess að koma okkur inn í leikinn. Ég held að ég hafi talið sjö góð færi í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik fáum við áfram góð færi. Auðvitað fá þeir líka færi á móti en ég held með betra „attitude-i” held ég að við hefðum náð betri úrslitum hér í kvöld,” sagði Gunnlaugur svekktur.

Arnþór Ari: Menn hafa sagt að ég sé ekki nægilega góður í að nýta færin

Arnþór Ari Atlason átti frábæran leik í 2-3 útisigri Breiðabliks á ÍA. Arnþór skoraði tvö mörk og skapaði mörg færi fyrir liðsfélagana sína. Hann var sáttur með leik sinn og liðs síns á Akranesi í kvöld.

„Nei ég er mjög sáttur í dag. Við náum í þrjú góð stig á erfiðum útivelli og mér fannst betra liðið vinna í kvöld. Við vorum mjög beittir í kvöld sem er kannski smá frábrugðið því sem hefur verið í upphafi móts. Við áttum að vinna leikinn stærra, við hleyptum þessu í óþarfa stress undir lokin,” sagði Arnþór Ari ánægður eftir leikinn.

Arnþór var mjög ánægður með að hafa skorað tvö mörk í kvöld. „Já að er mjög ljúft, menn hafa sagt að ég sé ekki nægilega góður að nýta færin en það gekk í dag og liðið spilaði vel sem skiptir öllu,” sagði besti maður vallarins í kvöld, Arnþór Ari Atlason eftir flottan útisigur á Skaganum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira