Handbolti

Selfoss lætur ekki stela af sér markadrottningu deildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Hulda Dís Þrastardóttir.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Hulda Dís Þrastardóttir. Mynd/Handknattleiksdeild Selfoss
Systurnar Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Hulda Dís Þrastardóttir hafa báðar framlengt samninga sína við handknattleiksdeild Selfoss og spila því áfram með liðinu í Olís-deild kvenna næsta vetur.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir hefur verið markadrottning Olís-deildar kvenna undanfarin þrjú tímabil og hefur í öll skiptin verið kosin besti sóknarmaður deildarinnar.

Það má búast við að mörg lið í deildinni hafi áhuga á að semja við þennan frábæra leikmann en Selfoss nær að halda henni sem eru frábærar fréttir fyrir liðið.

Hrafnhildur Hanna varð markadrottning í vetur þrátt fyrir að missa af síðustu þremur leikjunum eftir að hún sleit krossband í landsleik.

Hrafnhildur Hanna skoraði alls 174 mörk í 18 leikjum í Olís-deildinni eða 9,7 mörk að meðaltali í leik.  

Hún var fastamaður í A-landsliði Íslands fyrir meiðslin þar sem hún hefur spilað 22 landsleiki og skorað í þeim 47 mörk.

Hulda Dís, yngri systir hennar, hefur verið fastamaður í liði Selfoss undanfarin og er einn allra sterkasti varnarmaður deildarinnar.

„Handknattleiksdeild Selfoss fagnar því að þær systur skuli halda tryggð við sitt heimafélag og hlakkar til næsta vetrar með þær innanborðs. Frekari frétta af leikmannamálum hjá Selfoss að vænta á næstu dögum,“ segir í fréttatilkynningu frá Handknattleiksdeild Selfoss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×