Lífið

Salaskóli breyttist í bæ

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Handhafar viðurkenninganna, ásamt Margréti Friðriksdóttur formanni menntaráðs Kópavogs. Hrafnhildur er önnur frá vinstri í fremri röð og Þorvaldur er við hlið hennar, lengst til vinstri.
Handhafar viðurkenninganna, ásamt Margréti Friðriksdóttur formanni menntaráðs Kópavogs. Hrafnhildur er önnur frá vinstri í fremri röð og Þorvaldur er við hlið hennar, lengst til vinstri.
Hjá bæjarstjóranum fór fram atkvæðagreiðsla um tiltekið mál í bænum.
Kópurinn, viðurkenningar menntaráðs Kópavogs fyrir framúrskarandi skólastarf í grunnskólum Kópavogs, var veittur nýlega við hátíðlega athöfn í Salnum.

Alls bárust 20 tilnefningar til mennta­ráðs og voru veittar sex viðurkenningar fyrir verkefni sem þóttu fela í sér umbætur eða leiða til framfara í skólastarfi. Meðal þeirra var Ég og bærinn minn, þróunarverkefni sem kennararnir Þorvaldur Hermannsson og Hrafnhildur Georgsdóttir leiddu.

„Þetta var risaverkefni sem við höfum verið að vinna að í allan vetur,“ segir Hrafnhildur og segir hugmyndina að því hafa kviknað í Finnlandsferð sem nokkrir kennarar og skólastjóri Salaskóla fóru í. „Þar fengum við nasaþef af því sem við framkvæmdum,“ útskýrir hún.

„Við Þorvaldur tókum verkefnið að okkur og bjuggum til námsefni sem var kennt tvisvar í viku í fjórar vikur í 6. og 7. bekkjum, í þeim eru samtals 130 börn. Það var fræðsla um allt mögulegt sem þarf í einu samfélagi, um lýðræði, skatta, opinbera þjónustu og þar fram eftir götunum.

Í bakaríinu gerðu krakkarnir kókoskúlur og vöfflur og fengu líka brauð gefins frá Reyni bakara.
Börnin fengu 30 blaðsíðna vinnuhefti sem þau unnu í með sínum bekkjarkennurum. Síðan bjuggum við til bæ í salnum okkar, settum upp bása með 16 fyrirtækjum og stofnunum, bakarí, læknastofur, fréttastofu, líkamsræktarstöð, hárgreiðslustofu, skóla, trésmíðaverkstæði, bílastöð, löggustöð, ljósmyndastúdíó, svo einhver séu nefnd. Til að hafa allt sem eðlilegast fengum við lánað og gefið ýmislegt hjá hinum ýmsu fyrirtækjum og stofnunum í Kópavogi.“

Hrafnhildur segir 33 störf hafa verið í boði og öll börnin hafi sótt um fimm störf. Hvert og eitt fékk að taka þátt í bænum einn dag. Þau fengu ítarlega starfslýsingar sem leiddi þau í gegnum daginn og öll fengu peninga til umráða enda þurftu þau að borga skatta og eiga fyrir hinu og þessu. Öll þurftu líka að kjósa um ákveðið málefni í bænum og þannig kynntust þau lýðræðinu. Við renndum þessu prógrammi í gegn á fjórum dögum og endurröðuðum öllu í lok hvers dags, þannig að tilbúið væri fyrir næsta hóp.“

Auðvitað var skóli í bænum. Nemendur úr 2. bekk voru fengnir að láni og „kennararnir“ útbjuggu verkefni fyrir þá.
Verkefnin sem hlutu viðurkenningu eru

Samstarf Sinfóníuhljómsveitar Íslands og skólahljómsveitar Kópavogs, sem Össur Geirsson stýrir.

Ég og bærinn minn í Salaskóla, þróunarverkefni sem leitt var af Hrafnhildi Georgsdóttur og Þorvaldi Hermannssyni.

Rafrænar ferilmöppur í list- og verkgreinum, Árni Jónsson, Eygló Jósephsdóttir, Ingibjörg Ólafía Ólafsdóttir og Helga Björg Barðadóttir í Álfhólsskóla

Teymiskennsla í 1.-5.bekk Lindaskóla: Nanna Hlín Skúladóttir, Elsa Sif Guðmundsdóttir, Kristgerður Garðarsdóttir, Paloma Ruiz Martinez og Sigrún Dóra Jónsdóttir, Lára Sif Jónsdóttir, Sigurrós Óskarsdóttir, Auðbjörg Njálsdóttir, Ásta Björk Agnarsdóttir, Ásdís Björk Jónsdóttir og Guðrún Friðbjörg Eyjólfsdóttir.

Lestrarnámskeið í samstarfi nemenda, foreldra og sérkennara undir stjórn Kristínar Arnardóttur, sérkennara í Kópavogsskóla.

Appmótun: Tæknilæsi – myndlæsi – menningarlæsi. Ingibjörg Hannesdóttir Smáraskóla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×