Enski boltinn

Hundruð milljóna tjón fyrir Chelsea af því að Diego Costa lak öllu í fjölmiðla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Er Diego Costa að kyssa eða bíta í Chelsea-merkið?
Er Diego Costa að kyssa eða bíta í Chelsea-merkið? Vísir/Getty
Diego Costa er á leiðinni frá Chelsea en á því er lítill vafi eftir að framherjinn sagði öllum heiminum frá samskiptum sínum og knattspyrnustjórans Antonio Conte.

Antonio Conte sendi Costa einkaskilaboð um að ítalski knattspyrnustjórinn vildi ekki hafa Diego Costa í Chelsea-liðinu á næstu leiktíð. Costa sagði frá öllu saman í viðtölum við fjölmiðla eftir vináttulandsleik Spánverja og Kólumbíu.

Guardian slær því upp í morgun að þetta útspil Diego Costa muni kosta Chelsea hundruða milljóna þar sem að félagið er nú í mun verri samningsstöðu en áður þegar kemur að selja leikmanninn.

Liðin sem vilja kaupa Diego Costa vita að Chelsea þarf að selja hann og blaðamaður Guardian er á því að þessa vegna muni Chelsea missa af milljónum punda eða hundruðum milljónum íslenskra króna.  

Diego Costa átti frábært tímabil með Chelsea og hjálpaði Chelsea öðrum fremur að verða Englandsmeistari á fyrsti árinu undir stjórn Antonio Conte. Samband Costa og Conte var hinsvegar erfitt sem kristallast í þessum skilaboðum stjórans og í framhaldinu ákvörðun spænska landsliðsmannsins að leka öllu í fjölmiðla.

Enskir fjölmiðlar hafa sagt frá áhuga Chelsea á Romelu Lukaku en samningsstaða Everton er líka betri í framhaldinu þar sem að Everton-menn vita að Chelsea þarf nauðsynlega að finna sér stóran og sterkan framherja í stað Diego Costa.

Það er því ljóst að útspil Diego Costa mun reynast Chelsea dýrkeypt á félagsskiptamarkaðinum. Það er hinsvegar líka ótrúlegt að tuttugu marka manni  í ensku úrvalsdeildinni sé „sagt upp“ í smáskilaboðum frá stjóranum eftir tímabil þar sem liðið varð enskur meistari og var einum bikarúrslitaleik frá því að vinna tvöfalt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×