Enski boltinn

Harry Kane með augun á Gullboltanum en veit hvað þarf að breytast

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane vill ekki bara Gullskóinn heldur líka Gullboltann.
Harry Kane vill ekki bara Gullskóinn heldur líka Gullboltann. Vísir/Getty
Harry Kane, framherji Tottenham og enska landsliðsins, hefur fyrir löngu skapað sér nafn í hópi bestu framherja ensku úrvalsdeildinni þrátt fyrir ungan aldur en þessi 23 ára gamli strákur vill enn meira í framtíðinni.

Harry Kane sagði frá framtíðardraumum sínum á blaðamannafundi fyrir leik Englendinga og Skota í undankeppni HM.

Kane dreymir eins og marga aðra um að vinna Gullboltann sem besti knattspyrnumaður heims en viðurkennir að hann þurfi að fara að vinna titla ætli hann að komast á þann stall.

„Hver vill ekki vinna Gullboltann? Það er án vafa eitthvað sem ég sækist eftir,“ sagði Harry Kane og bætti við:

„Ef ég ætla mér að ná þangað þá þarf ég að fara að vinna stóru mótin bæði með félaginu mínu og landsliði. Ronaldo vann Evrópukeppnina og Meistaradeildina og Messi er í svipaðri stöðu,“ sagði Kane. BBC segir frá.

Kane hefur verið markakóngur ensku úrvalsdeildarinnar tvö ár í röð og á báðum tímabilunum hefur Tottenham verið í titilbaráttunni án þess að vinna. Liðið er titlalaus á síðustu níu tímabilum en hefur hækkað sig í deildinni á þremur tímabilum í röð.

„Til að ná að vinna Gullboltann þá er ekki nóg að standa sig vel sem einstaklingur heldur þurfa liðin þín líka að vinna titla. Vonandi er það eitthvað sem ég næ að gera með Tottenham,“ sagði Kane.

Síðasti titill Tottenham var deildarbikarmeistaratitilinn 2008 en félagið hefur ekki unnið ensku deildina í 56 ár (1961) og ekki enska bikarinn í 26 ár (1991).

Harry Kane hefur skorað yfir tuttugu mörk á síðustu þremur tímabilum og hækkað markaskor sitt á hverju tímabili í ensku úrvalsdeildinni frá því að skora 3 mörk tímabilið 2013-14, í það að skora 21 mark 2014-15, 25 mörk 2015-16 og loks 29 mörk í aðeins 30 leikjum á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×