Sport

Afrekaði það á afmæli sínu sem engin kona hefur náð í 34 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jelena Ostapenko.
Jelena Ostapenko. Vísir/Getty
Jelena Ostapenko er komin í úrslit á opna franska meistaramótinu í tennis og skrifaði þar með bæði íþróttasögu Lettlands og franska meistaramótsins.

Jelena hélt upp á tvítugsafmælið með því að komast í úrslitaleik á einu af risamótunum fjórum en hún fæddist 7. júní 1997 í Riga í Lettlandi.  Ostapenko vann Timea Bacsinszky í undanúrslitunum 7-6 (4), 3-6 og 6-3.

Eftir að sigurinn var í höfn þá sungu allir áhorfendurnir afmælissönginn fyrir hana. „Ég er virkilega ánægð. Ég elska að spila hérna. Ég elska ykkur öll, þið eruð frábær og takk fyrir að koma og styðja mig. Ég er svo ánægð með hvernig ég hélt upp á afmælisdaginn minn,“ sagði Jelena Ostapenko strax eftir leikinn.

Ostapenko afrekaði það sem engin kona hefur náð í 34 ár eða að komast í úrslit án þess að hafa röðun í mótið. Síðust til að ná því á þessu móti var Mima Jausovec árið 1983.





Ostapenko mun mæta hinni rúmensku Simona Halep í úrslitaleiknum á morgun. Þar getur hún unnið sitt fyrsta alþjóðlega mót á ferlinum.

Jelena Ostapenko var „aðeins“ í 47. sæti á síðasta heimslistanum en hún náði með þessu að verða fyrsti lettneski tennisspilarinn sem kemst í úrslitaleik á risamóti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×