Enski boltinn

Rússi tekur við liði Hull City | Hefur verið að læra ensku síðustu fimm mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leonid Slutsky.
Leonid Slutsky. Vísir/Getty
Hull City hefur fundið eftirmann Marco Silva en félagið hefur ráðið Leonid Slutsky í starf knattspyrnustjóra félagsins.

Marco Silva kom inn á miðju tímabili hjá Hull City en ákvað að hætta með liðið og taka frekar við Watford. Hull fékk í b-deildina í vor en Watford bjargaði sér.





Leonid Slutsky stýrði rússneska landsliðinu á EM 2016 og vann á sínum tíma þrjá titla með CSKA Moskvu.   Hann er 46 ára gamall. Rússar unnu sex af þrettán leikjum sínum undir hans stjórn frá 2015 til 2016 en Slutsky var enn stjóri CSKA Moskvu þegar hann tók við rússneska landsliðinu í ágúst 2015.

Slutsky hætti með lið CSKA Moskvu í desember síðastliðnum en síðasti leikur liðsins undir hans stjórn var Meistaradeildarleikur á móti Tottenham á Wembley-leikvanginum.

Leonid Slutsky sagði fréttamanni BBC að hann hafi verið að læra ensku undanfarna fimm mánuði. Hann verður fjórði knattspyrnustjóri Hull City á innan við ári og fylgir þar í fótspor Marco Silva, Steve Bruce og Mike Phelan.

Slutsky er góður vinur Roman Abramovich, eiganda Chelsea. Hann mun koma til Hull City í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×