Enski boltinn

Moyes fékk 3,8 milljóna sekt fyrir að hóta íþróttafréttakonu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Moyes.
David Moyes. Vísir/Getty
David Moyes, fyrrum knattspyrnustjóri Sunderland, hefur verið sektaður um 30 þúsund pund af enska knattspyrnusambandinu eftir að hafa hótað íþróttafréttakonu BBC barsmíðum í mars.

Moyes var þá í viðtali hjá henni Vicki Sparks á BBC og var mjög pirraður þegar hún spurði það hvort að eigandinn Ellis Short hafi sett auka pressu á stjórann með því að mæta á svæðið.

„Ég myndi passa mig. Þú gætir verið slegin, jafnvel þótt þú sért kona. Passaðu þig næst þegar þú kemur,“ sagði Moyes við Sparks eftir að viðtalinu lauk.

Moyes bað Sparks seinna persónulega afsökunar og sagði sjá eftir öllu saman þegar hann hitti fjölmiðlamenn á blaðamannafundi.

„Þetta gerðist í hita augnabliksins,“ sagði Moyes. „Ég er ekki svona maður. Ég gengst við þessum mistökum. Ég talaði við fréttakonuna sem samþykkti afsökunarbeiðni mína,“ sagði David Moyes á blaðamannfundinum 3. apríl síðastliðnum.

Það fór vel á með Vicki Sparks og David Moyes þegar þau hittust aftur og hún sendi ekki inn formlega kvörtun.

Það kom samt ekki í veg fyrir að Moyes fékk þunga sekt en 30 þúsund pund eru um 3,8 milljónir íslenskra króna.

David Moyes hætti sem stjóri Sunderland í maí eftir að liðið féll úr ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×