Skoðun

"Amazing Air Iceland Connect“

Linda Markúsdóttir skrifar
Nú um mundir á íslenskan á brattann að sækja og berst fyrir tilvistarrétti sínum í sífellt enskuskotnari heimi. Í vikunni sem leið skipti Flugfélag Íslands um nafn og heitir nú „Air Iceland Connect“.

Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að „ástæður fyrir nafnbreytingunni eru nokkrar og má þar nefna aukin umsvif á erlendum mörkuðum, umtalsverða fjölgun erlendra ferðamanna, aukið samstarf við Icelandair og einföldun á markaðsstarfi, en tvöfalt nafnakerfi félagsins hefur þýtt talsverðan kostnaðarauka og valdið einhverjum farþegum óþægindum og orsakað misskilning.“

Ætli þeir hjá þýska flugfélaginu Lufthansa viti af þessu? Það ætti kannski einhver að taka að sér að hringja í þá og láta vita að það sé ekki hægt að hafa mikil alþjóðleg umsvif án þess að heita ensku nafni. Þeim verður eflaust mjög brugðið.

En gott og vel, ef ástæðan fyrir nafnbreytingu Flugfélags Íslands er sú að auðvelda viðskiptavinum félagsins lífið mætti þá ekki nota annað íslenskt nafn? Flugfélagið þyrfti ekki að heita Eyjafjallajökull en á milli þess og „Air Iceland Connect“ er ansi langur vegur. Í þessu sambandi er vert að nefna íslenska fyrirtækið Meniga en það er í örum vexti og teygir anga sína víðsvegar um heiminn. Nafn þess er tekið úr íslenskri barnagælu frá miðri 20. öld og ætti ekki að vera neinum nema Íslendingum kunnugt. Björk heitir ennþá Björk, Sigur Rós ennþá Sigur Rós og stoðtækjaframleiðandinn Össur heitir ennþá Össur þrátt fyrir að eiga í viðskiptum í 24 löndum.

Þegar öllu er á botninn hvolft þykir sumum íslenskan ekki nægilega grípandi, ekki nægilega aðgengileg og alls ekki nægilega töff. Ágætu íslensku viðskiptajöfrar, markaðsfrömuðir og fyrirtækjaeigendur, það er fleira til sem ekki er töff. Má þar meðal annars nefna minnimáttarkennd, þröngsýni og rökleysur.

Höfundur er íslensku- og talmeinafræðingur.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×