Viðskipti innlent

Seldu kaffihús í Kópavogi og opna hostel í hjarta Akureyrar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Amaro-húsið er hér í bakgrunni en fyrir er annað hostel í göngugötunni á Akureyri.
Amaro-húsið er hér í bakgrunni en fyrir er annað hostel í göngugötunni á Akureyri. Vísir/Auðunn
Sandra Harðardóttir og eiginmaður hennar hafa heldur betur söðlað um að undanförnu. Eftir að hafa rekið kaffihúsið Café Dix í Kópavogi eru þau flutt norður til Akureyrar þar sem þau munu opna hostel í sumar.

Hostelið, sem heitir Hafnarstræti Hostel og er staðsett í göngugötunni í miðbæ Akureyrar, nánar tiltekið í hinu sögufræga Amaro-húsi, verður opnað 1. júlí en er þó ekki alveg eins og hefðbundið hostel.

„Við erum með svona nútíma lokrekkjur. Það eru snjallsjónvarp, öryggisskápur og þetta eru aðgangsstýrðir klefar. Við erum með þetta skipt niður í ganga. Þú bara kaupir þinn klefa og gistir í honum,“ segir Sandra sem spjallaði við Heimi Karlsson og Gunnlaug Helgason í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Klefarnir, sem sjá má hér fyrir neðan, hafa verið að ryðja sér til rúms víða um heim og alls verður pláss fyrir 96 manneskjur á hostelinu sem verður á annarri hæð í Amaro-húsinu.

En af hverju seldu þau kaffihúsið og ákvaðu að flytja til Akureyrar?

„Te og Kaffi sýndi áhuga á því að kaupa kaffihúsið og við vorum bara til. Við vorum búin að sprengja húsnæði utan af okkur,“ segir Sandra.

Sandra og fjölskylda eru vongóð um að reksturinn gangi vel enda sé hostelið fyrst og fremst hugsað fyrir ungt fólk sem komi alltaf til með að ferðast, sama hvernig viðrar í efnahagsmálum heimsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×