Enski boltinn

Stjóri Jóns Daða vildi ekki fara eftir nýrri stefnu og var rekinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jón Daði og félagar héldu sér uppi en fá nú nýjan stjóra.
Jón Daði og félagar héldu sér uppi en fá nú nýjan stjóra. vísir/getty
Jón Daði Böðvarsson, landsliðsframherji í fótbolta, fær nýjan knattspyrnustjóra á næstu dögum eða vikum hjá félagsliði sínu Wolverhampton Wanderers en Skotinn Paul Lambert var látinn fara í dag.

Lambert tók við Úlfunum í nóvember á síðasta ári og bjargaði liðinu frá falli eftir slæma byrjun þess. Það hafnaði í fimmtánda sæti og var ekki nálægt fallsvæðinu.

Sky Sports segist hafa heimildir fyrir því að Lambert sagði ekki upp heldur var hann ekki tilbúinn að vinna eftir nýrri stefnu félagsins í leikmannamálum sem ofurumboðsmaðurinn Jorge Mendes á að stýra.

Mendes er tengdur Fosun-fjárfestingahópnum sem á Úlfana en Lambert er þriðji stjórinn sem er látinn fara eftir að hann eignaðist félagið í júlí í fyrra.

Portúgalinn Nuno Espirito Santo er sterklega orðaður við starfið en hann sagði upp hjá Porto eftir að tímabilinu í Portúgal lauk.

Jón Daði spilaði 42 af 46 leikjum Úlfanna í ensku B-deildinni á síðustu leiktíð. Hann byrjaði 22 og kom 20 sinnum inn á sem varamaður. Selfyssingurinn skoraði þrjú mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×