Enski boltinn

Vill engar hamingjuóskir og heitir því að kaupa bestu leikmenn heims

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pep Guardiola var ráðinn til að vinna deildina, ekki hafna í þriðja sæti.
Pep Guardiola var ráðinn til að vinna deildina, ekki hafna í þriðja sæti. Vísir/EPA
Khaldoon Al Mubarak, stjórnarformaður Manchester City í ensku úrvalsdeildinni, datt ekki í hug að fagna þriðja sæti deildarinnar því yfirlýst stefna félagsins er að vinna úrvalsdeildina á hverju ári.

„Það er ekkert sem fer meira í taugarnar á mér en þegar fólk hringir í mig eða sendir mér skilaboð og óskar mér til hamingju með þriðja sætið. Ég segi við alla að óska mér ekki til hamingju með þriðja sætið. Þetta er ekkert fagnaðarefni. Ég vil bara hamingjuóskir ef við vinnum deildina,“ segir hann í viðtali við sjónvarpsstöð Manchester City.

„Markmiðið er aldrei að ná þriðja sætinu. Þessu fögnum við ekki. Mér finnst mikilvægt að leggja metnað í að vinna deildina. Það er gott að vera á meðal efstu fjögurra liðanna en við viljum vinna hana.“

Al Mubarak verður mjög upptekinn á skrifstofunni í sumar því City ætlar að gera stórar breytingar á leikmannahópnum og endurnýja hann að miklu leyti.

City er búið að ganga frá kaupum á Bernardo Silva frá Monaco fyrir 43 milljónir punda og þá er félagið að landa markverðinum Ederson frá Benfica á 35 milljónir punda. Hann fer í læknisskoðun í dag.

„Við ætlum okkur að ná í nokkra af bestu leikmönnum heims sem eiga að vera hluti af hugmyndafræði okkar. Þetta byrjaði síðasta sumar og það mega allir búast við því að það haldi áfram í sumar,“ segir Khaldoon Al Mubarak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×