Enski boltinn

Sanchez og Özil sagðir vilja fara frá Arsenal

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alexis Sanchez og Mesut Özil.
Alexis Sanchez og Mesut Özil. Vísir/Getty
Alexis Sanchez og Mesut Özil vilja báðir fara frá Arsenal í sumar ef marka má fréttir breska blaðsins The Times.

Enskir miðlar greindu frá því í gær að Arsene Wenger hefði verið boðinn nýr tveggja ára samningur við félagið og að tilkynnt verði um framlenginguna í dag.

The Times segir að Sanchez eigi eitt ár eftir af samningi sínum við Arsenal en að hann ætli sér að komast frá Lundúnum í sumar og vilji semja við Bayern München í Þýskalandi.

Mesut Özil á sömuleiðis eitt ár eftir af sínum samningi en mun vera reiðubúinn að vera áfram þar til að hann rennur út.

Samkvæmt fréttinni hafa forráðamenn Arsenal reynt ítrekað síðustu tvö ár að semja við þá Özil og Sanchez, en án árangurs. Félagið er sagt reiðubúið að bjóða báðum 280 þúsund pund í vikulaun - jafnvirði 35 milljóna króna. Þeir yrðu þá með tvöfalt hærri laun en nokkur annar leikmaður Arsenal.

Arsenal verður ekki með í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð og er það í fyrsta sinn í 20 ár sem að það gerist. Þá hefur liðið ekki orðið enskur meistari í meira en áratug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×