Enski boltinn

Gylfi ein af bestu langskyttum tímabilsins í enska

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Getty
Íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson skoraði fjögur af níu mörkum sínum í ensku úrvalsdeildinni í vetur með skotum fyrir utan teig. Gylfi er í hópi mestu langskyttna deildarinnar.

Það eru aðeins tveir leikmenn sem skoruðu fleiri mörk fyrir utan teig en Gylfi samkvæmt samantekt fólksins á Squawka. Efstur á lista er Brasilíumaðurinn Philippe Coutinho hjá Liverpool sem skoraði sex mörk með langskotum.

Coutinho skoraði alls 13 mörk í deildinni og gerði því 46 prósent marka sinna með langskotum. Gylfi skoraði 4 af 9 mörkum með langskotum eða 44 prósent marka sinna.

Í öðru sæti var síðan markakóngurinn Harry Kane hjá Tottenham en 5 af 29 mörkum hans komu með skotum fyrir utan vítateig.

Gylfi deilir þriðja sætinu með þremur leikmönnum en þeir Zlatan Ibrahimovic hjá Manchester United, Kevin De Bruyne hjá Manchester City og Xherdan Shaqiri hjá Stoke City skoruðu líka fjögur mörk með skotum fyrir utan teig. Shaqiri skoraði öll fjögur mörkin sín með skotum fyrir utan teig.









Mörk Gylfa úr aukaspyrnum voru tvö en hann skoraði beint úr aukaspyrnu á móti Crystal Palace og á móti Manchester United á Old Trafford.

Gylfi skapar alltaf hættu þegar hann nálgast vítateiginn því  burt séð frá langskotum hans þá átti hann þrettán stoðsendingar á tímabilinu.

Gylfi Þór SigurðssonVísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×