Enski boltinn

Fyrrverandi þjálfari Porto tekinn við Jóni Daða og félögum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Nuno Espírito Santo fer úr Meistaradeildinni í ensku B-deildina.
Nuno Espírito Santo fer úr Meistaradeildinni í ensku B-deildina. vísir/getty
Jón Daði Böðvarsson, landsliðsmaður í fótbolta, er kominn með nýjan stjóra hjá félagsliði sínu Úlfunum í ensku B-deildinni en Paul Lambert var látinn fara í gær.

Eins og búist var við var Portúgalinn Nuno Espírito Santo ráðinn til starfa en hann kemur til Wolves frá Porto. Undir hans stjórn hafnaði Porto í öðru sæti portúgölsku úrvalsdeildarinnar með 76 stig, sex stigum minna en meistarar Benfica.

Nuno, eins og hann er kallaður, spilaði með Porto frá 2002-2004 og aftur frá 2007-2010 en lagði svo skóna á hilluna. Hann gerðist þjálfari Rio Ave árið 2012 og var þar í tvö ár áður en hann stýrði Valencia á Spáni 2014-2015. Hann kom svo aftur heim til Porto fyrir síðustu leiktíð.

Úlfarnir eru að taka til í leikmannamálum hjá sér og hafa falið ofurumboðsmanninum Jorge Mendes, sem er líka Portúgali, að stýra leikmannakaupum sínum en hann er í miklum tengslum við fjárfestingahópinn Fosun sem á félagið.

Það kom því engum á óvart að Portúgalinn Nuno Espírito Santo var ráðinn til starfa hjá Úlfunum tveimur dögum eftir að hann sagði upp hjá Porto.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×