Handbolti

Björgvin Hólmgeirsson kominn heim í ÍR | „Já þið lásuð rétt“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Þór Hólmgeirsson.
Björgvin Þór Hólmgeirsson. Vísir/Andri Marinó
Björgvin Þór Hólmgeirsson, besti leikmaður Olís-deildar karla 2014-15, er kominn heim og ætlar að spila með ÍR-ingum næsta vetur.

ÍR-ingar eru komnir aftur upp í deild þeirra bestu og þetta er gríðarlegur liðstyrkur fyrir Breiðholtsliðið sem tilkynnti um nýja liðsmanninn á fésbókarsíðu sinni í dag.

„Já þið lásuð rétt, langbesti leikmaður Olís deildarinnar fyrir tveimur árum er kominn heim. Þetta undirstrikar enn fremur þá stefnu okkar að koma ÍR aftur í fremstu röð, þar sem við eigum heima,“ segir í frétt ÍR-inga.

Björgvin Þór Hólmgeirsson skoraði 168 mörk í 22 leikjum með ÍR-ingum í deildarkeppninni 2014-15 en liðið endaði þá í þriðja sæti.

Björgvin safnaði að sér verðlaunum á lokhófinu þar sem hann var kosinn besti leikmaðurinn, besti sóknarmaðurinn og fékk að auki verðlaun sem markahæsti leikmaður deildarinnar.

ÍR-ingar féllu síðan úr deildinni án hans árið eftir en endurheimtu sæti sitt í Olís-deildinni í vetur eftir að hafa unnið Þrótt í umspilsleikjum.

Björgvin fór í ævintýri til Dúbæ þar sem hann spilaði með Al Wasl en þessi 29 ára leikmaður mun nú spila aftur í ÍR-búningnum tímabilið 2017-18.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×