Lífið

Hvar er best að kaupa í matinn?

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Tinna Bessadóttir með dætrum sínum Elenu og Maríu Ísól að versla á Íslandi.
Tinna Bessadóttir með dætrum sínum Elenu og Maríu Ísól að versla á Íslandi. Visir/Stefán
Við lítum í innkaupakörfur Norðurlandabúa og fáum innsýn í matarverð, úrval og mismunandi matarmenningu landanna. Er grasið grænna hinum megin við lækinn?

ÍslandÍ Færeyjum hafa íbúar gott aðgengi að ferskum fiski á góðu verði. Í Danmörku er mikið úrval lífrænt ræktaðs grænmetis í höfuðborginni. Í Svíþjóð þykir erfitt að kaupa inn lítið magn í einu og hátt verð í verslunarkeðjum. Í Finnlandi hefur orðið bylting í vöruúrvali. Á Íslandi þykir úrval af fiskmeti lítið og verð á grænmeti hátt.

Fiskur er lúxusvara á Íslandi

Tinna Bessadóttir og fjölskylda segja að úrvalið á Íslandi standist samanburð við stærri lönd. Fiskur sé hins vegar hálfgerð lúxusvara og verð ávaxta og grænmetis er allt of hátt.

Fjölskyldan

Við erum með svolítið sérstakt fjölskyldumynstur, eiginmaður minn Jón vinnur í tvær vikur erlendis og er svo heima í tvær vikur.

Þegar hann er heima erum við 6 til 7 í heimili. Á heimilinu fyrir utan mig og Jón eru María Ísól (8 ára) Haukur Birgir (10 ára) Gabríele Ýr (12 ára) Elena Dís (15 ára) og Brynhildur Ýr (20 ára). Sú elsta borðar ekki mjög oft hjá okkur og þær tvær vikur sem maðurinn minn vinnur erlendis erum við bara þrjár á heimilinu, ég, Elena og María.

Alltaf til í ísskápnum

Við eigum alltaf til mjólk, samlokubrauð í frystinum, gróft brauð sem ég geymi í ísskápnum, AB mjólk eða skyr, banana, avókadó, tómata, lauk, egg.

Morgunverður

Múslí eða Special K.

Kvöldverður

Við borðum frekar fjölbreytt. Það er ekkert sérstakt mynstur. Ég reyni að hafa lax eða einhvern fisk í hverri viku, annars borðum við mikinn kjúkling og höfum oft lasanja, það er svo gott að eiga það til.

Eftir að hafa búið með fjölskyldunni bæði í Danmörku og á Ítalíu þá er ég bara nokkuð ánægð með úrvalið á Íslandi, við fáum mat úr öllum áttum og maður getur nokkurn veginn fengið hvað sem mann langar í. Í öðrum löndum er ekki endilega allt þetta val. Það er til dæmis mjög erfitt að vera með glútenóþol á Ítalíu!

Dýrt grænmeti

Verðið á grænmeti og ávöxtum er brýnt að lækka. Mér þykir það líka synd að neytendur á Íslandi hafi ekki meira val um ferskan fisk. Það eru aðeins tvær til þrjár tegundir í boði hverju sinni. Hann er líka hálfgerð lúxusvara, fiskur er ótrúlega dýr miðað við kjöt.

Hagkvæm innkaup

Kostnaðurinn við innkaup er misjafn. Hann er um 20.000 krónur á viku þegar við erum öll heima. En sjö til átta þúsund þegar við erum bara þrjár.

Eftir að hafa verið bæði einstæð móðir og hafa búið í Danmörku í námi þá hef ég lært hvernig á að halda matarkostnaði í lágmarki en geta samt sem áður leyft mér það sem ég vil.

Við kaupum til dæmis ekki mikið gos, kex eða sælgæti. Ef við gerum það þá er farin sér ferð til að kaupa það. Við erum með krakkana í íþróttum svo að við eigum alltaf til skyr, gróft rúgbrauð og ávexti, sem er margfalt ódýrara og að mínu mati hollara en orkudrykkir og próteinstykki.

Ég hendi yfirleitt ekki mat og við erum dugleg að elda fyrir marga daga í einu og borða afganga. Annars eru oft afmæli hjá okkur og þá rýkur þetta auðvitað upp.

Inni í matarkörfunni tel ég ekki hreinsiefni eða pappír því það kaupi ég í Rekstrarvörum í stærri pakkningum.

Dýrir en góðir veitingastaðir

Á Íslandi er allt til, við erum mjög opin fyrir nýjungum og veitingastaðirnir okkar eru mjög góðir, það er næstum erfitt að hitta á lélegan veitingastað hér en þeir eru auðvitað allt of dýrir miðað við önnur lönd. Ég er ánægð með það að við höfum sagt bless við McDonalds og félaga.

Mörg heimili mættu alveg taka til í hollustunni að mínu mati en Íslendingar eru yfir heildina frekar upplýstir um hvað er hollt og hvað ekki. Ég kem reyndar úr kokkafjölskyldu og það er mikið um góðan mat í kring um mig en yfir heildina litið held ég að Íslendingar séu líka duglegir að prófa nýja rétti og aðferðir, mér þykir til dæmis ótrúlega gaman að fara í saumaklúbb og sjá hvað vinkonur mínar eru að prófa.

Tinna verslaði fyrir 19,374 kr.

Í matarkörfunni voru til dæmis:

l 2 kg rauðar kartöflur 699 kr

l Agúrkur 200 g 350 kr

l Íslenskir tómatar 799 kr. kg.

Færeyjar
Ferskur fiskur oftast á borðum

Urd Johannesen keypti inn fyrir eiginmann og tvo syni. Hún segir Færeyinga oftast vera með ferskan fisk á borðum og að sjálfbærni skipti þá miklu máli. Lífrænn matur verður sífellt vinsælli.

Fjölskyldan

Við erum fjögur í fjölskyldunni. Ég, maðurinn minn og tveir synir. Bernharður Wilkinson (66 ára), Urd Johannesen (50 ára) og synir, Hjalte F. Bachmann (22 ára) og William Wilkinson (13 ára).

Alltaf til í ísskápnum

Mjólk, jógúrt, smjör, egg, beikon, ostur, sulta, lýsi og lífrænt pylsu­álegg á brauð.

Morgunverður

Ég og maðurinn minn fáum okkur brauð með smjöri, osti og hunangi, drekkum sítrónuvatn og tökum inn lýsi. Hjalti fær sér egg og múslí með mjólk. William fær sér morgunkorn með mjólk eða jógúrt.

Oftast í kvöldmatinn

Kjúklingur, fiskur eða nautahakk með annaðhvort hrísgrjónum, kartöflum eða pasta með grænmeti eða salati.

Matarúrvalið hefur batnað mjög mikið síðustu fimm ári. Það er meira úrval af framandi mat og kryddi. Einnig hefur úrval af lífrænum mat batnað töluvert þótt enn megi gera betur, sér í lagi í minni bæjarfélögum í Færeyjum. Flestir hér kaupa lífræn egg, þau seljast mun betur en önnur egg. Úrval matar og grænmetis er betra í Þórshöfn en á fjarlægari eyjum. Fólk borðar mikið af fiski. Fiskurinn er mjög ferskur en hann er ekki hægt að kaupa í öllum búðum. Fólk veiðir hann ekki endilega sjálft í höfuðborginni eins og í minni plássum um eyjarnar. Það er meiri sjálfbærni utan borgarinnar og fólk þar hefur meiri aðgang að ferskmeti, bæði lambakjöti og fiski.

Kostnaður hár við innkaup

Kostnaður við matarinnkaup er mjög hár á innfluttum mat og heldur áfram að hækka að því virðist. Við sjáum auglýsingar um mat í Danmörku og það er rosalegur verðmunur. Kostnaður við nauðsynjar, svo sem mjólk, hefur einnig hækkað síðustu ár og það verður sífellt erfiðara fyrir barnmargar fjölskyldur að brauðfæða sig.

Það þarf að auka við úrval á lífrænum mat og vinna í lægra matvöruverði. Það þarf að hvetja fólk til að kaupa minna magn í einu og minnka matarsóun. Það er erfitt hér fyrir einstæða foreldra og eldri borgara að kaupa í matinn það magn sem það þarf.

Urd verslaði 20 vörur fyrir 587 færeyskar krónur eða 8827 íslenskar krónur.

Í matarkörfunni var til dæmis:

l BKI kaffi 500 gr 750 kr.

l Lífrænt hunang 901 kr.

l Gulrætur í bakka 285 kr.

 

Noregur
Brauð og rautt kjöt

Anne Gunn Halvor­sen, rithöfundur og blaðamaður, eyddi heilu ári í að kynna sér helstu þætti lífsins, þeirra á meðal mat. Norðmenn borða mikið af brauði og rauðu kjöti. Niðurstaðan var að kjötát er varasamt.

Fjölskyldan

Við erum fjögur í fjölskyldunni. Ég, eiginmaður minn, Henny (4 ára) og Hav (2 ára).

Alltaf til í ísskápnum

Mjólk, súkkulaði, smjörlíki, gúrka og pylsur úr lambakjöti.

Morgunverður

Brauð, brauð og brauð!

Oftast í kvöldmatinn

Við reynum að hafa kjötlausa mánudaga og borðum fisk að minnsta kosti þrisvar í viku svo við deyjum ekki ótímabærum dauðdaga!

Okkar glataði matvörumarkaður býður ekki upp á mjög góðan fisk svo við borðum oftast fiskibollur og fiskistauta og aðrar draslútgáfur af iðnaðarfiski. Ég vona að við fáum ekki krabbamein.

Við borðum mikið af brauði og rauðu kjöti. Mér finnst leiðinlegt að segja það en við hötum að eyða peningum í mat. Ef við horfum á björtu hliðarnar þá blómstrar matarmenning á veitingastöðum í borgum Ósló. Það er gott, allir ættu að heimsækja Ósló og muna að taka allan sinn sparnað með!

Fákeppni og lítið úrval

Matvörumarkaðnum ráða þrjú stór fyrirtæki. Ef þú ert bóndi eða sjálfstæður framleiðandi er erfitt fyrir þig að hasla þér völl á markaðnum. Það er líka erfitt fyrir okkur, neytendur, að finna vörur þeirra. Margir kvarta yfir þessu hér. Leiðinlegt og lítið úrval í matvöruverslunum okkar. Sem er satt, en svona er þetta vegna þess að fyrirtækin vilja skera niður kostnað og tölfræðin sýnir að þótt neytendur kvarti hástöfum yfir lélegu vöruúrvali þá halda þeir áfram miklum viðskiptum við verslanirnar vegna þess að verðið skiptir þá á endanum mestu máli.

Ég held að margir Norðmenn séu að verða meira meðvitaðir um að borða minna kjöt. Að minnsta kosti þá hefur nýverið aukist úrval af grænmetisfæði í verslunum. En tölfræðin sýnir að enn borðum við sturlað magn af kjöti svo ég er ekki viss um hvort það er óskhyggja í Norðmönnum að borða minna kjöt eða hvort við gerum það raunverulega.

Matur og kvíði

Anne Gunn gaf nýverið út bókina Livet og korleis leve det, sem mætti snara yfir á íslensku: Lífið og hvernig á að lifa því. Bókin sló í gegn í Noregi. „Bókin samanstendur af fimm köflum, í hverjum þeirra reyni ég að kryfja hvað skiptir okkur mestu máli og hvernig við getum tekist á við það. Ég fjalla um ást, tímastjórnun, peninga, dauða og mat.“

Anne Gunn skrifaði bókina vegna þess að hún var þreytt á því að velta því fyrir sér hvernig hún ætti að lifa lífinu sem fullorðin manneskja. „Ég helgaði eitt ár í lífi mínu því að finna út úr þessu öllu saman. Ég hitti fjölmarga prófessora, vísindamenn, las tölfræði og tók viðtöl við venjulegt fólk, allir sögðu mér frá því hvernig þeir tækla lífið. Ég varð vitrari, minna kvíðin og hætti að eyða tíma í vangaveltur.

Ég valdi að hafa einn kafla um mat vegna þess að ég les mikið um mat í fréttum sem valda mér kvíða. Allt var orðið svo hættulegt allt í einu. Þú ættir ekki að borða kjúkling vegna sýklalyfjaónæmis, þú ættir ekki að drekka límonaði eða borða jógúrt vegna mikils sykurinnihalds. Rautt kjöt veldur krabbameini og brauð ætti aldrei að kaupa í verslunum. Þau eru alltof sölt (og einnig krabbameinsvaldandi). Sem móðir tveggja drengja sem vilja vera á lífi þá leið mér eins og það væri ómögulegt að gera það rétta. Jafnvel grænmeti og ávextir eru þaktir eiturefnum frá ógnvænlegum býlum í fjarlægum löndum. Svo ég ákvað að kafa í málið með aðferðum blaðamennskunnar. Til að komast að því hvað ég ætti í raun að vera hrædd við og forðast og það mikilvægasta, hvers væri öruggt að neyta.“

Niðurstaðan: Varist rautt kjöt!

Ég hitti vísindamenn og kynnti mér tölfræði og uppgötvaði nokkuð mjög merkilegt. Við borðum heilnæmara fæði en nokkru sinni áður.

Uppáhaldsprófessorinn minn í Noregi, Rune Blomhoff (Óslóarháskóla) sagði einnig að hann langaði ekki lengur að taka þátt í umræðu um hollustufæði í fjölmiðlum vegna þess að það þýddi slag við fólk með litla menntun og þekkingu (svo sem einkaþjálfara, bloggara...

Og jafnvel þótt hann hefði allar staðreyndir málsins, þá meðtaki fólk þær ekki. Ég komst einnig að því að það sem þú ættir að hræðast er rautt kjöt og að verða of þungur. Það er það sem drepur þig, allt hitt skiptir ekki svo miklu máli.

Anne Gunn verslaði 80 vörur fyrir 259,846 norskar krónur eða 30.827 íslenskar krónur.

Í matarkörfunni var til dæmis:

l Sex egg á 246 kr

l Perur, kílóið á 273 kr

l 2 lítrar af Fanta 362 kr

l 1 kíló gulrætur 308 kr

Finnland
Finnar elda allt í einum potti

Sini Koskeneppä er ein í heimili og borðar oftast heimagerðan mat, ferskt grænmeti og fisk. Í Finnlandi er rótargrænmeti vinsælt og hefðbundið hráefni. Úrval matvöru í Finnlandi hefur breyst mikið síðustu tíu ár.

Fjölskylda

Sini Koskenseppä (34 ára).

Alltaf til í ísskápnum

Mjólk, egg, jógúrt, sellerí, grænkál, ostur og hummus.

Morgunverður

Egg, vefja með hummus og/eða jógúrt með berjum.

Kvöldverður

Ég borða mikið af heimagerðum mat, salat með mikið af kryddjurtum og mismunandi grænmeti, osti og humri. Ég borða mjög mikið af fiski og lítið af rauðu kjöti.

Ég held að Finnar trúi því að matur sé dýr hér. En gæði grænmetis og ávaxta eru ótrúlega mikil, þegar haft er í huga hversu langa vegalengd þarf að flytja það hingað. Og það er líka orðið mjög gott og breitt úrval af framandi matvöru líka. Ég held að á síðustu tíu árum hafi úrvalið batnað til muna í matvöruverslunum okkar hér. Ég veit ekki hvað ætti að bæta þar sem það er svo gott.

Erfiðar aðstæður til ræktunar

Finnar borða mikið af rótargrænmeti (kartöflur, næpur, gulrætur, rauðrófur og fleira), mjólkurvörur, egg og svínakjöt. Margir af okkar hefðbundnu réttum eru pottréttir og fiskréttir. Það tengist sögu okkar og erfiðum aðstæðum til ræktunar. Það hefur verið erfitt að rækta ferskt grænmeti hér annað en það sem vex neðanjarðar. Að elda stórar máltíðir í einum potti er mjög hefðbundið.

Sini verslaði 11 vörur fyrir 35 evrur eða 3913 íslenskar krónur.

Í matarkörfunni var til dæmis

l sex egg 133 kr

l 384 g af nautahakki 597 kr

l íslenskt skyr frá ms 133 kr

SvíþjóðOft einfaldur og ódýr matur á borðum

Martine Westin og Ragnar Palacios búa í miðborg Stokkhólms. Þau segja dýrt að kaupa inn í litlu magni í Svíþjóð. Oft er einfaldur og ódýr matur á borðum en stundum lúxusfæði í sérflokki enda er Ragnar kokkur.

Fjölskylda

Á heimili mínu erum við tvö. Ég, Martine Westin (28 ára), og unnusti minn, Ragnar Palacios (31 árs).

Alltaf til í ísskápnum

Mjólk, Coca-Cola, einhver tegund af osti, krydd eins og sambal oleg, karrýblöndur og bananar.

Morgunverður

Dæmigerður morgunverður hjá mér er jógúrt og hristingur með banana, prótíndufti og einhverju fleiru. Dæmigerður sænskur morgunverður er öðruvísi. Það myndi vera brauðsneið með osti, skinku og gúrku. Mjög sænskt!

Kvöldverður

Upp á síðkastið höfum við borðað mikið af pasta, af því það er ódýrt og einfalt. Unnusti minn er yfirkokkur á veitingastað svo kvöldverðurinn er af mjög fjölbreyttu tagi og ekki alltaf einfaldur. Hann kemur heim með alls kyns góðgæti af veitingastaðnum, þannig að stundum erum við með fínustu nautasteik eða risarækjur á miðvikudegi!

Matarverð í Svíþjóð er hátt, en ekki mjög hátt. Stærsti vandinn er að það er erfitt að kaupa inn í litlu magni. Því minna magn sem þú kaupir inn því dýrara er það. Ætli það sé ekki þannig alls staðar. Þannig verða innkaupin dýr, þegar lítið er keypt í einu til langs tíma. Verðið er mjög mismunandi á milli verslana. Það er gott, það má velja ódýrari kost, til dæmis verslunina Lidl. Ef fólk býr langt frá borginni og býr aðeins nálægt ICA búð (dýrasta verslunarkeðjan í Svíþjóð) þá getur það leitt til mikils aukakostnaðar í innkaupum. Margar verslanir, ICA og COOP, eru reknar á einkaleyfum, sem þýðir að þær geta ráððið verðinu á vörum sínum.

Úrval matar er gott í Svíþjóð og ég er til dæmis himinlifandi með Saluhall, þar sem verslun með mat verður félagsleg upplifun.

Saluhall

Saluhall-matarmarkaðurinn er í stórri byggingu í Östermalm-hverfinu í Stokkhólmi. Þar hefur verið seldur matur frá árinu 1888, það fínasta og besta sem Svíþjóð hefur upp á að bjóða. Þar er einnig fjöldi veitingastaða og kaffihúsa þar sem má fá sér dæmigerðan venjulegan sænskan heimilismat með sérstakri áherslu á sjávarfang. Nú standa yfir endurbætur á húsnæðinu og markaðurinn hefur tímabundið verið færður á Östermalmtorgið. Saluhall verður opnaður aftur í sama húsnæði árið 2018 og Svíar hlakka mjög til þess.

Martine verslaði 18 vörur fyrir 391,68 sænskar krónur eða 4474 íslenskar krónur.

Í matarkörfunni var til dæmis:

l Líter af mjólk 16,95 194 kr

l Parmesanostur grana padano 559 kr.

l ferskt pasta fyrir tvo 251 kr

l jarðarber 500 g. 285 kr.

l bananar 227 kr kg

DanmörkLífrænt ræktað grænmeti

Ann Odgaard Søren­sen og fjölskylda borða mikið af lífrænt ræktuðu grænmeti og annarri matvöru. Hún segir úrval slíkrar fæðu gott í höfuðborginni en lítið í dreifbýli.

Fjölskylda

Ann (36 ára), Svend (1 árs), Karen (3 ára) og Peter (34 ára).

Alltaf til í ísskápnum

Grænmeti, mjólk, jógúrt og ávextir.

Morgunverður

Haframjöl með mjólk eða rúgbrauð með osti.

Kvöldverður

Við borðum helst grænmeti og fisk og sjaldan kjöt. En aðallega borðum við alls konar grænmetisrétti.

Það er mjög mikill munur á því hversu miklu fjölskyldur eyða í mat eftir því hvort fólk býr í borg eða minni bæjum á borð við til dæmis Jótland. Og úrvalið er annað líka. Við borðum mikið af lífrænum mat og oftar grænmeti en kjöt. En þegar við heimsækjum foreldra mína á Jótlandi þá eru lífrænar vörur ekki til, nema þá helst mjólk.

Ég vona að allar stórverslanir og bændur í Danmörku verði vistvæn, við verðum að hugsa betur um jörðina og það myndi bæta lífsgæði mín og allra annarra.

Ann Odgaard verslaði 15 vörur fyrir 208 danskar krónur eða rétt rúmlega 3000 íslenskar krónur.

Í matarkörfunni var til dæmis:

l Hálft kíló af osti 675 kr

l Kíló af sykri 254 kr

l Fjórir smoothiedrykkir 600 krónur

Íslendingur í Danmörku
Innkaup Anítu. Hún segir Dani borða mun hollari fæðu á viðráðanlegra verði.
Hollara og ódýrara

Aníta Eldjárn býr í Kaupmannahöfn og segir Dani borða mun hollara fæði og hafa betra aðgengi að lífrænum mat á viðráðanlegu verði.

Fjölskylda

Aníta Eldjárn (31 árs).

Alltaf til í ísskápnum?

Ég á alltaf nóg af ávöxtum og grænmeti , mjólk, rúgbrauð, pestó, hummus, lifrarkæfu, egg, morgunkorn og sódavatn.

Morgunverður

Bananar, morgunkorn og kaffi.

Kvöldverður

Ég elda ekki mikið nema ég eldi með meðleigjendum mínum. Þegar við eldum gerum við oftast mexíkóskan mat eða pasta. Ef ég borða ein er máltíðin mjög einföld: rúgbrauð, egg og grænmeti.

Ég myndi segja að maturinn hér sé mun hollari. Danir borða mikið rúgbrauð og hér er mun minna um hvítt brauð. Hér er líka hægt að fá nánast allt lífrænt og á viðráðanlegu verði. Hið gamla góða smørrebrød er líka mjög vinsælt og mun betri og hollari kostur en skyndibiti á Íslandi.

Það er mjög mikill munur á verði. Hér hef ég efni á að kaupa mun meiri og hollari mat. Ég á til dæmis alltaf ávexti og grænmeti sem er eitthvað sem ég leyfði mér minna að kaupa á Íslandi sökum verðs. Úrvalið er svipað en hér geturðu alltaf valið lífræna vöru sem er mikill kostur.

Aníta verslaði 13 vörur fyrir 131.55 danskar krónur eða tæpar 2000 íslenskar krónur.

Í matarkörfunni var til dæmis:

l Sex lífrænir bananar 210 kr

l Tómatar 300 kr

l Líter af léttmjólk 142 kr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×