Enski boltinn

Fær einhver annar en Kane að klæða sig í gullskóinn?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kane hefur skorað 26 mörk í aðeins 30 deildarleikjum í vetur.
Kane hefur skorað 26 mörk í aðeins 30 deildarleikjum í vetur. vísir/getty
Harry Kane, framherji Tottenham, hefur tveggja marka forystu á Romelu Lukaku hjá Everton í baráttunni um markakóngstitilinn í ensku úrvalsdeildinni.

Lokaumferðin fer fram í dag og þá kemur í ljós hver hreppir gullskóinn.

Kane tók forystuna í baráttunni um hann með mörkunum fjórum sem hann skoraði í 1-6 sigri Tottenham á Leicester City á fimmtudaginn.

Kane er búinn að skora 26 mörk í aðeins 30 deildarleikjum í vetur, tveimur mörkum meira en Lukaku. Alexis Sánchez hjá Arsenal er svo í 3. sæti markalistans með 23 mörk.

Kane varð markakóngur á síðasta tímabili og endurtaki hann leikinn verður hann fyrsti Englendingurinn síðan Michael Owen sem vinnur gullskóinn tvö ár í röð.

Kevin De Bruyne er efstur á listanum yfir flestar stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni.

Belginn hefur lagt upp 16 mörk á tímabilinu, þremur mörkum meira en Christian Eriksen hjá Tottenham og Gylfi Þór Sigurðsson hjá Swansea City.

Thibaut Courtois, markvörður Chelsea, leiðir kapphlaupið um gullhanskann sem er veittur þeim markverði sem heldur oftast hreinu á tímabilinu.

Courtois hefur haldið 16 sinnum hreinu í vetur, einu sinni oftar en Hugo Lloris hjá Tottenham.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×