Enski boltinn

Herrera segist ekki verðskulda fyrirliðabandið

Ander Herrera í leik með Manchester United fyrr í vetur.
Ander Herrera í leik með Manchester United fyrr í vetur. vísir/getty
Ander Herrera, spænski miðjumaður Manchester United, segist ekki eiga skilið að vera nefndur til greina sem næsti fyrirliði Manchester United þar sem hann hafi ekki unnið nægilega marga titla með félaginu.

Herrera hefur átt stórgott tímabil í vetur undir stjórn Jose Mourinho en hann var valinn leikmaður ársins af félaginu fyrr í vetur á sínu þriðja tímabili hjá Manchester United.

Talið er að Wayne Rooney, fyrirliði Manchester United, sé á förum í sumar eftir þrettán ár í herbúðum Manchester United en það hafa heyrst köll eftir því að Herrera taki við fyrirliðabandinu af honum.

Hinn 27 árs gamli Herrera segist vera þakklátur fyrir stuðninginn en hann sé eflaust ekki kominn í flokk með goðsögnum liðsins.

„Það eru eintómar goðsagnir sem hafa borið fyrirliðabandið hjá félaginu, Rooney, Carrick, Giggs og Vidic. Þetta er ótrúlegur listi af leikmönnum og mér finnst eins og ég þurfi að ná meiri árangri til að koma til greina. Það eru reynslumeiri leikmenn hjá félaginu á borð við Cmalling, De Gea og Mata.“

Herrera á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum í Manchester-borg en hann segist geta ímyndað sér að leika með félaginu það sem eftir lifir ferilsins.

„Til þess að leika með þessu félagi út ferilinn þá þarftu að leika vel hvern einasta leik og það er ekki auðvelt. Lykilatriðið í því samhengi er stöðugleiki. Vonandi verð ég nefndur í sama samhengi og allar goðsagnir félagsins en ég þarf fyrsta að skila fyrir stærsta og besta félag Englands.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×