Enski boltinn

Kane tryggði sér gullskóinn með átta mörkum í síðustu þremur leikjunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harry Kane skoraði flest mörk allra í ensku úrvalsdeildinni í vetur, eða 29 talsins.

Þetta er annað árið í röð sem Kane vinnur gullskóinn. Hann varð þar með fyrsti Englendingurinn sem afrekar það síðan Michael Owen tímabilin 1997-98 og 1998-99.

Kane var þremur mörkum á eftir Romelu Lukaku hjá Everton þegar þrjár umferðir voru eftir. Tottenham-maðurinn fór hins vegar á kostum í þessum þremur leikjum og skoraði alls átta mörk í þeim.

Kane skoraði í 2-1 sigrinum á Manchester United, fernu í 1-6 sigrinum á Leicester City og þrennu í 1-7 sigrinum á Hull City í dag.

Lukaku kom næstur á eftir Kane með 25 mörk og Alexis Sánchez, leikmaður Arsenal, skoraði 24 mörk.

Kevin De Bruyne gaf flestar stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Belginn lagði upp tvö mörk þegar Manchester City rústaði Watford í dag, 0-5, og endaði með 18 stoðsendingar. Christian Eriksen hjá Tottenham kom næstur með 15 stoðsendingar og Gylfi Þór Sigurðsson lagði upp 13 mörk.

Thibaut Courtois, markvörður Chelsea, fékk gullhanskann sem er veittur þeim markverði sem heldur oftast hreinu á tímabilinu.

Courtois hélt 16 sinnum hreinu í vetur, einu sinni oftar en Hugo Lloris, markvörður Tottenham.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×