Viðskipti innlent

Fjárfestar kaupa eignir í Eyjum af miklum móð

Fasteignafélög veðja greinilega á hækkandi verð með bættum samgöngum.
Fasteignafélög veðja greinilega á hækkandi verð með bættum samgöngum. vísir/óskar p. friðriksson
Færst hefur í aukana síðustu vikur að stór fasteignafélög kaupi upp fasteignir í Vestmannaeyjum og veðji þannir á hækkandi fasteignaverð samfara bættum samgöngum til og frá Eyjum. Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir fjárfesta hafa mikla trú á áhrifum nýrrar Landeyjahafnar.

„Við á landsbyggðinni vitum sem er að í hvert skipti sem samgöngur lagast þá hækkar fasteignaverð,“ segir Elliði.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
„Við sjáum það hér í Eyjum mjög glöggt í tengslum við gerð Landeyjahafnar. Ég get staðfest að hafa orðið var við að stór félög séu að kaupa upp fasteignir í Eyjum. Þeir hafa þá líklega meiri trú á því að verðið muni hækka en heimamenn.“

Guðjón Hjörleifsson, fasteignasali í Vestmannaeyjum, hefur sömu sögu að segja og Elliði og staðfestir að á annan tug fasteigna hafi á stuttum tíma farið til fasteignafélaga. Stór fyrirtæki fái lánað hjá Íbúðalánasjóði á sömu vöxtum og almenningur til langs tíma. Eignamyndun félaganna sé hraðari á stöðum eins og Vestmannaeyjum en í Reykjavík til að mynda.

„Jú, ég hef verið að selja íbúðir til fasteignafélaga í Eyjum sem ætla sér að leigja út eignirnar í einhvern tíma þar til fýsilegt verður að selja. Það er mjög áhugavert að sjá þennan viðsnúning því þetta er eitthvað sem við höfum ekki séð mikið af hér í Eyjum,“ segir Guðjón. „Menn fá hér eignir á góðu verði þar sem atvinnulíf er með ágætum og svo veðja menn líklega á að verðið hækki með bættum samgöngum.“

Elliði segir það mikilvægt að heimamenn sjái líka tækifærið í auknum samgöngum við Landeyjahöfn og haldi ekki að sér höndum. „Fjárfestar kaupa núna bæði íbúðir og hús sem þeir ætla að leigja og selja áfram. 

Því gæti verið sniðugt að fjárfesta nú áður en verð hækkar í Eyjum. það hefur margsýnt sig að verð fasteigna fer upp um leið og samgöngur batna,“ segir bæjarstjórinn. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×