Innlent

Vilja tónleikaþvagið burt með auknu samráði við bæinn

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Tveir þeirra sem skvettu úr skinnsokknum á lóðinni á leiðinni á tónleikana.
Tveir þeirra sem skvettu úr skinnsokknum á lóðinni á leiðinni á tónleikana.
„Ég er ekki ósátt við tónleikana og tónleikahaldið en það hefði mátt vera meira samráð við íbúa,“ segir Rannveig Guðmundsdóttir, íbúi í Tröllakór.

Þýska hljómsveitin Rammstein hélt íburðarmikla tónleika í Kórnum á laugardag en rúmlega 17 þúsund manns gerðu sér ferð til að berja hljómsveitina augum. Íbúð Rannveigar stendur nánast við íþróttahúsið þar sem tónleikarnir voru haldnir.

„Íbúðin okkar er við göngustíginn í Kórinn og fólk streymdi framhjá bæði fyrir og eftir tónleikana. Sumir þurftu að létta á sér á leiðinni og létu þá bara vaða inn í garða, ruslageymslur og fyrir framan börn sem voru að hjóla hérna. Þetta er auðvitað ágangur á okkar eignir.“

Rannveig segir bæjaryfirvöld og tónleikahaldara hafa verið snögga að þrífa allt upp að tónleikum loknum en það séu litlir vankantar þarna sem mætti pússa af fyrir næstu tónleika sem verða haldnir.

„Mér þætti allt í lagi ef rætt yrði við okkur til að sjá hvað mætti fara betur. Hvort það sé ástæða til að girða eitthvað meira af eða hvort önnur leið sé fær. Þetta eru þriðju stóru tónleikarnir hérna og til að það fari ekki á milli mála þá er ég alls ekki ósátt yfir tónleikahaldi hérna. Það er hins vegar óþolandi að þurfa að spúla allt hérna eftir þá,“ segir Rannveig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×