Innlent

Miklu færri bókanir í borginni

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Talsvert hefur dregið úr að ferðamenn bóki ferðir í til að mynda hvalaskoðun á höfuðborgarsvæðinu, það sem af er maí.
Talsvert hefur dregið úr að ferðamenn bóki ferðir í til að mynda hvalaskoðun á höfuðborgarsvæðinu, það sem af er maí. vísir/stefán
Forsvarsmenn fyrir­tækja í ferðaþjónustu í Reykjavík segja talsvert færri bókanir á hótelgistingum, borðum á veitingastöðum og afþreyingu fyrir ferðamenn fyrstu þrjár vikurnar í maí, miðað við í fyrra. Segja þeir bókanir allt að 40 prósentum færri á tímabilinu.

„Þetta sé ég svart á hvítu í mínum rekstri. Ég veit ekki hvort um er að ræða fækkun ferðamanna, eða breytta hegðun. Það er engin mæði í okkur – en ef þetta heldur svona áfram er ljóst að það þarf að draga saman seglin,“ segir Rannveig Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Eldingar, hvalaskoðunarfyrirtækis, en hún á einnig sæti í stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar.

„Við erum að sjá 38 prósent færri bókanir á dagsferðum frá Reykjavík á tímabilinu, en bókunarstaðan í sumar lítur ágætlega út. Maí er alltaf rólegri í afþreyingu en aðrir mánuðir, en það kemur á óvart hvað þetta er mikil dýfa,“ segir Þórarinn Þór, framkvæmdastjóri hjá Reykjavík Excursions.

„Maður heyrir að ferðamenn séu að eyða minna, kaupi ódýrari mat úr lágvöruverslunum, gisti færri nætur og velji ódýrari afþreyingu,“ útskýrir Rannveig.

Upplýsingafulltrúi Isavia segist ekki hafa merkt fækkun ferðamanna sem heimsækja landið, en farþegaspár gera ráð fyrir áframhaldandi fjölgun. „Mér fyndist áhugavert að sjá frekari greiningu á þessum tölum,“ segir Rannveig, en líkt og fram hefur komið fer talning ferðamanna í Leifsstöð fram við vopnaleitina. Allir sem fara þar í gegn og hafa erlend vegabréf eru taldir ferðamenn, líka þeir sem búa á Íslandi. Einnig þeir sem fara aldrei út af Leifsstöð, eru á leið annað í tengiflugi, en þurfa að sækja farangur og innrita sig aftur á Keflavíkurflugvelli.

Gengi íslensku krónunnar gæti líka haft áhrif á eyðslu ferðamanna, en krónan hefur styrkst mjög gagnvart erlendum gjaldmiðlum undanfarið.


Tengdar fréttir

Fordæmalaus uppbygging í sveit og bæ

Sveitarstjóri Rangárþings eystra segir uppbyggingu í sveitarfélaginu meiri nú en áður hafi sést. Það á bæði við um þéttbýli og dreifbýli. Ferðaþjónusta drífur vöxtinn áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×