Fótbolti

Manchester United getur orðið fimmta félagið til að vinna alla Evróputitlana

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pogba getur orðið hluti af sögulegum árangri United í kvöld.
Pogba getur orðið hluti af sögulegum árangri United í kvöld. vísir/getty
Tímabilið er undir hjá Manchester United á Vinavöllum í Stokkhólmi í kvöld þegar liðið mætir Ajax í úrslitaleik Evrópudeildarinnar klukkan 18.45. Leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.

Með sigri fer United beint í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu á næsta ári en þetta er síðasta tækifæri liðsins til að komast þangað eftir að það hafnaði í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar og missti af Meistaradeildarsæti.

Það sem meira er getur United með sigri komist í hóp fjögurra stórliða sem öll hafa unnið alla Evróputitlana þrjá sem í boði eru, eða reyndar voru, því ein keppnin er ekki til lengur.

Þetta eru Meistaradeildin, áður Evrópukeppni meistaraliða, Evrópukeppni bikarhafa og Evrópudeildin, áður Evrópukeppni félagsliða. Evrópukeppni bikarhafa var sameinuð með Evrópukeppni félagsliða í Evrópudeildina árið 2004.

Manchester United hefur þrívegis unnið Meistaradeildina; 1968, 1999 og 2008, en það varð Evrópumeistari bikarhafa árið 1991 eftir frækinn sigur á Barcelona í Rotterdam.

Evrópukeppni félagsliða eða Evrópudeildina hefur United aldrei unnið en Ajax er eitt liðanna fjögurra sem hefur unnið allar keppninnar þrjár.

Ajax hefur unnið Meistaradeildina fjórum sinnum, síðast árið 1995, Evrópukeppni bikarhafa einu sinni (1987) og Evrópukeppni félagsliða einu sinni árið 1992. Síðasti Evróputitill félagsins vannst árið 1995 þegar liðið lagði AC Milan í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Hin liðin þrjú sem hafa unnið alla Evróputitlana eru Chelsea, Juventus og Bayern München en þau eru ekki mörg liðin sem geta enn náð þessari þrennu eftir að Evrókeppni bikarhafa var lögð niður eða sameinuð inn í Evrópudeildina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×