Íslenski boltinn

Keflvíkingar ætla að vera jafntefliskóngarnir eins og í fyrra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Juraj Grizelj skoraði annað marka Keflavíkurliðsins í kvöld.
Juraj Grizelj skoraði annað marka Keflavíkurliðsins í kvöld. Vísir/Anton
Selfyssingar komust í toppsæti Inkasso-deildar karla í fótbolta eftir 2-2 jafntefli í Keflavík í kvöld en bæði liðin áttu möguleika á því að komast á toppinn.

Selfossliðið komst tvisvar yfir í leiknum en heimamenn náðu að jafna í bæði skiptin. Selfoss er með sjö stig eins og Fylkir en betri markatölur. Árbæingar eiga aftur á móti leik inni.

Keflavík hefur enn ekki tapað í Inkasso-deildinni í sumar en jafnteflin eru orðin þrjú í fyrstu fjórum umferðunum.

Keflavíkingar gerðu flest jafntefli í Inkasso-deildinni í fyrra og eru á góðri leið með að verða jafntefliskóngarnir annað árið í röð.

Keflavík er í þriðja sætinu með einu stigi minna en toppliðin tvö en jafnmörg stig og HK og Þróttur R. sem eiga bæði leik inni.

Ingi Rafn Ingibergsson kom Selfossi í 1-0 á 50. mínútu en Juraj Grizelj jafnaði aðeins tveimur mínútum síðar.

Keflvíkingar voru líka fljótir að jafna aftur eftir að James Mack kom Selfossi í 2-1 á 63. mínútu. Hólmar Örn Rúnarsson skoraði jöfnunarmark þremur mínútum síðar og það mark tryggði Keflvíkingum eitt stig og þriðja jafntefli sumarsins.

Hörður Sveinsson fékk dauðafæri til að tryggja Keflavík öll stigin í lokin en klúðraði upplögðu marktækifæri.

Uppplýsingar um markaskorara leiksins eru fengnar frá heimasíðu KSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×