Enski boltinn

Pogba var dýrastur allra síðasta sumar en fjórir kostuðu meira á mínútuna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Paul Pogba var ekki svo dýr miðað við mínútur spilaðar.
Paul Pogba var ekki svo dýr miðað við mínútur spilaðar. vísir/getty
Paul Pogba, leikmaður Manchester United, varð dýrasti leikmaður heims síðasta sumar þegar enska félagið keypti hann heim frá Juventus fyrir 93 milljónir punda.

Verðmiðinn hljómar vitaskuld ótrúlega þó í heildina hafi þetta ekki verið stór hluti af heildarveltu Manchester United sem er ríkasta fótboltafélag í heimi.

Þrátt fyrir að vera sá dýrasti sem keyptur var inn í deildina síðasta sumar kostaði hver mínúta sem hann spilaði ekki mestan aurinn. Hann spilaði svo mikið að hann er aðeins í fimmta sæti á þeim lista.

Sky Sports er með skemmtilega samantekt yfir dýrustu mínúturnar í ensku úrvalsdeildinni en þar trónir Georges-Kévin Nkoudou sem keyptur var til Tottenham á toppnum.

Georges-Kévin Nkoudou gerði ekki mikið.vísir/getty
Frakkinn var keyptur á níu milljónir punda en spilaði aðeins 49 mínútur. Hver mínúta sem hann spilaði kostaði því 183.673,47 pund eða ríflega 24 milljónir íslenskra króna.

Belgíski framherjinn Michy Batshuayi olli miklum vonbrigðum hjá Chelsea en þetta ungstirni sem nánast öll lið í Evrópu vildu fá skoraði aðeins fimm mörk í deildinni í vetur, þar af þrjú af þeim eftir að Chelsea var búið að tryggja sér titilinn.

Batshuayi kostaði Chelsea 33,2 milljónir punda en spilaði ekki bema 239 mínútur sem þýðir að hver mínúta sem hann spilaði var 138.912,13 punda virði.

Lucas Pérez hjá Arsenal kemur næstur og svo Nampalys Mendy hjá Leicester en í fimmta sæti er Paul Pogba sem spilaði 2.608 mínútur fyrir Manchester United á síðustu leiktíð. Þrátt fyrir stjarnfræðilegt kaupverð kostaði hann „aðeins“ 35.755,37 pund á mínútuna.

Smelltu hér til að sjá allan listann.

mynd/sky sports



Fleiri fréttir

Sjá meira


×