Enski boltinn

Liverpool gæti þurft að borga 50 milljónir punda fyrir Keita

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Það vantaði ekki orkuna í Naby Keita á síðustu leiktíð.
Það vantaði ekki orkuna í Naby Keita á síðustu leiktíð. vísir/getty
Liverpool gæti reynst erfitt að kaupa Gíneamanninn Naby Keita frá RB Leipzig í sumar þar sem þýska félagið ætlar að berjast með kjafti og klóm fyrir því að halda sínum bestu mönnum hjá félaginu. Sky Sports greinir frá.

Keita sló í gegn á sinni fyrstu leiktíð í þýsku 1. deildinni í vetur en hann skoraði átta mörk í 29 leikjum er moldríkir nýliðar Leipzig, styrktir af orkudrykkjaframleiðandanum Red Bull, náðu öðru sæti deildarinnar á sinni fyrstu leiktíð í deild þeirra bestu.

Miðjumaðurinn kom til Leipzig frá Red Bull Salzburg fyrir síðustu leiktíð en Jürgen Klopp er sagður mikill aðdáandi leikmannsins sem er 22 ára gamall og á að baki 19 landsleiki fyrir Gíneu.

„Við höfum ákveðið að selja enga byrjunarliðsmenn. Ralf Rangnick [yfirmaður fótboltamála hjá Leipzig] sagði leikmönnunum þetta eftir tímabilið. Við munum halda liðinu saman og halda áfram að þróast,“ segir Oliver Mintzlaff, framkvæmdastjóri RB Leipzig, í viðtali við The Times.

Fram kemur í frétt Sky Sports að Leipzig sé aðeins tilbúið að hlusta á tilboð yfir 50 milljónir punda fyrir Keita en talið er að miðvörðurinn Virgil van Dijk, leikmaður Southampton, gæti kostað það sama. Liverpool er einnig spennt fyrir honum sem og fleiri félög.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×