Innlent

Sjötíu kvartanir á tveimur dögum vegna ólyktar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
„Meira en við bjuggumst við,“ segir Einar.
„Meira en við bjuggumst við,“ segir Einar. Vísir/Vilhelm
Níutíu kvartanir vegna ólyktar hafa borist á borð Umhverfisstofnunar frá því að ljósbogaofn kísilverksmiðjunnar United Silicon var ræstur á sunnudag. Þar af hafa sjötíu kvartanir borist stofnuninni á síðustu tveimur dögum.

„Þetta er meira en við bjuggumst við,“ segir Einar Halldórsson, sérfræðingur í eftirlitsteymi Umhverfisstofnunar, í samtali við fréttastofu.

Ljósbogaofn verksmiðjunnar var sem fyrr segir ræstur á sunnudag en hann stöðvaðist á þriðjudagskvöld vegna þess að eitt af rafskautum ofnsins brotnaði. Af þeim sökum barst lykt frá verksmiðjunni en ofninn var gangsettur að nýju á miðvikudagskvöld.

Einar segir það því hafa verið viðbúið að kvartanir myndu berast en stofnunin fylgist grannt með gangi mála og reynir að halda bæjaryfirvöldum upplýstum um það sem gerist í rekstri ofnsins.

„Það var gefið að þessi vika yrði óstöðug en við teljum að þetta sé tímabundið ástand. Þessi lykt ætti að hverfa þegar ofninn kemst í fullt álag. Það hefur gengið vel síðan í fyrrakvöld að keyra ofninn upp þannig að við vonumst til að lyktin hverfi eftir það,“ segir hann.

Loftgæði eru mæld í verksmiðjunni, í nágrenni hennar og á einu heimili í Reykjanesbæ. Sýnin verða í framhaldinu send norsku loftannsóknarstofnuninni NILU. Einar segir að samkvæmt sóttvarnalækni sé fólk ekki í bráðri hættu vegna hugsanlegrar loftmengunar en hvetur fólk til þess að leita sér læknisaðstoðar finni það fyrir einkennum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×