Sport

Íslenskt landsliðsfólk strandaglópar á Heathrow

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Keppendur Íslands á Smáþjóðaleikunum í San Marinó.
Keppendur Íslands á Smáþjóðaleikunum í San Marinó. Mynd/ÍSÍ
Smáþjóðaleikarnir í San Marinó hefjast í vikunni og hluti íslenska íþróttafólksins fór af stað í morgun. Þau komust hinsvegar ekki langt.

Ívar Ásgrímsson, þjálfari kvennalandsliðsins í körfubolta, segir frá því á fésbókarsíðu sinni að íslenski hópurinn sá fastur á Heathrow-flugvelli í London.

Flug British Airways liggja niðri og íslenska íþróttafólkið er því strandaglópar á flugvellinum.

Ívar segir að þarna séu yfir 50 íþróttamenn- og konur úr körfubolta og sundi. Íslenskir keppendur á Smáþjóðaleikunum í ár eru alls 136 talsins.

Keppendur í körfubolta og sundi áttu og fljúga í gegnum London og svo til Bologna á Ítalíu. Hópurinn átti að vera kominn um 16:00 að íslenskum tíma til San Marínó en þau munu aldrei ná þeim tíma.

894 keppendur eru skráðir til þátttöku á Smáþjóðaleikunum, þar af 526 karlar og 368 konur. Samtals eru þátttakendur á Smáþjóðaleikunum í ár í kringum 1400 manns, það eru fararstjórar, flokksstjórar, gestir og aðrir sem að hópunum koma.

Smáþjóðaleikarnir hefjast í San Marínó 29. maí og standa til 3. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×