Erlent

Theresa May gæti þurft að endurskoða sjálfstæði Skotlands ef Skoski þjóðarflokkurinn vinnur kosningasigur

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Nicola Sturgeon og Theresa May.
Nicola Sturgeon og Theresa May. Vísir/afp
Ef Skoski þjóðarflokkurinn vinnur flest sæti fyrir Skotland í þingkosningunum 8. júní næstkomandi mun forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, þurfa að endurskoða stöðu Skotlands gagnvart bresku krúnunni og líklegra verður að hún samþykki að Skotar haldi aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði sitt frá Bretum. Þetta var haft eftir Nicola Sturgeon í dag. Reuters greinir frá.

Árið 2015 vann Skoski þjóðarflokkurinn 56 sæti af þeim 59 sem í boði voru og hafa flokksmenn sagt að Skotar ættu að fá annað tækifæri til að kjósa um sjálfstæði sitt þegar skilmálar Brexit, útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, eru orðnir skýrir.

May hefur áður látið hafa eftir sér að nú sé hins vegar ekki tíminn til að ræða nýjar kosningar um sjálfstæði Skota en í kosningunum árið 2014 munaði aðeins tíu prósentum sem dugði til þess að sjálfstæði var hafnað af skosku þjóðinni. Lítið hefur breyst síðan þá.

Sturgeon segir þó að ný þjóðaratkvæðagreiðsla sé nauðsynleg í ljósi þess að Skotar voru í meirihluta þeirra sem kusu gegn Brexit. Hún bendir á að sú niðurstaða sé einfaldlega á skjön við niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar um sjálfstæði Skota. Forsendur hafi þannig breyst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×