Enski boltinn

Assou-Ekotto ætlar ekki að gerast klámstjarna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Assou-Ekotto er sérstakur náungi. Hann ætlar þó ekki að gerast klámstjarna.
Assou-Ekotto er sérstakur náungi. Hann ætlar þó ekki að gerast klámstjarna. vísir/getty
Öfugt við það sem Harry Redknapp sagði er kamerúnski varnarmaðurinn Benoit Assou-Ekotto ekki á leið í klámbransann.

Redknapp hafði áhuga á því að fá Assou-Ekotto til Birmingham City fyrir næsta tímabil en sagði svo að ekkert yrði úr því þar sem Kamerúninn ætlaði að gerast klámstjarna.

„Eina vandamálið er að hann hefur viðurkennt fyrir mér að hann vilji verða klámstjarna. Kannski næ ég einu ári út úr honum áður en hann ákveður að fara út í þá vinnu,“ sagði Redknapp á dögunum.

Redknapp virðist hins vegar hafa verið að grínast miðað við ummæli Assou-Ekotto í France Football.

„Þetta hlýtur að vera grín. Það skrítnasta er að þetta var tekið alvarlega. Eins og ég hafi áhuga á því að gerast klámstjarna,“ sagði Assou-Ekotto og bætti því við að hann hafi bara hlegið að þessum ummælum Redknapps.

Redknapp fékk Assou-Ekotto bæði til Tottenham og QPR á sínum tíma. Varnarmaðurinn er núna á mála hjá Metz í Frakklandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×