Lífið

Oft meiri húmor og litagleði í bandarískri hönnun

Guðný Hrönn skrifar
Elín Bríta er eigandi vefverslunarinnar LAUUF.com.
Elín Bríta er eigandi vefverslunarinnar LAUUF.com. Vísir/Anton Brink
Vöruhönnuðurinn Elín Bríta Sigvaldadóttir heillaðist af bandarískri hönnun þegar hún bjó í New York á sínum tíma. Þegar hún flutti svo til baka til Íslands ákvað hún að opna vefverslun og kynna landsmenn fyrir nýrri og ferskri hönnun.

Í New York opnaðist fyrir mér nýr heimur af ungum og upprennandi bandarískum hönnuðum og listamönnum. Ég rakst á svo margar skemmtilegar og heillandi vörur að ég ákvað að slá til og opna vefverslun þegar ég flutti heim aftur. En að mínu mati hefur vantað aðeins í flóruna hér heima, þar sem langflestar verslanir virðast einblína á skandinavískar og evrópskar vörur,“ segir Elín Bríta, eigandi vefverslunarinnar LAUUF.

„Flestar þær vörur sem ég býð upp á eru frá Brooklyn, en þar er mjög mikið af litlum stúdíóum sem hafa poppað upp síðustu ár. Stúdíóin sem ég hef valið inn í verslunina vinna oft mjög staðbundið og nýta sér fyrirtæki og tækni á því svæði þar sem þau eru staðsett,“ útskýrir Elín.

Vildi auka í flóruna„Með því að opna LAUUF vildi ég auka í þá flóru hönnunarvöru sem er í boði hér á landi og opna huga landsmanna fyrir hönnun frá Bandaríkjunum, en hingað til hefur sáralítið verið í boði þaðan. Einnig þykir mér gaman hvað það kemur fólki oft á óvart hvað þessi nýja kynslóð af bandarískum hönnuðum er í rauninni að gera skemmtilega hluti.“

Spurð út í hver sé helsti munurinn á bandarískri og skandinavískri hönnun að hennar mati segir Elín: „Ég hef ég tekið eftir meiri litagleði og húmor hjá bandarískum hönnuðum og hvað þeir eru duglegir að halda í þetta hráa og „industrial“ og leyfa efniviðnum frekar að njóta sín eins og hann er.“

Aðspurð hvernig reksturinn fari af stað segir Elín hlutina ganga ágætlega fyrir sig.

„Allt hefur gengið nokkuð vel hingað til, en það sem hefur kannski verið erfiðast að kyngja er hvað sendingarkostnaðurinn frá Bandaríkjunum er himinhár. Meðan ég var búsett í New York fannst mér afar mikilvægt að nýta tímann til þess að hitta fólkið bak við þau vörumerki sem ég valdi að selja í versluninni. Að opna vefverslun felur í sér ótrúlega mikil og náin samskipti við birgjana, sem mér hefur fundist mjög skemmtilegt og gefandi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×