Skoðun

Stutt svar til Guðmundar Andra

Stefán Karlsson skrifar
Guðmundur Andri Thorsson svarar grein minni um pólitískan rétttrúnað og hatursorðræðu. Þó að Guðmundur geri sér far um að setja fram mál sitt með hófstilltum og málefnalegum hætti finnst mér gæta svolítils misskilning í túlkun hans á grein minni.

Greinarhöfundur segir t.d. á einum stað: „Stefán skrifar svolítið eins og það séu mikilsverð réttindi að fá að stunda „hatursorðræðu“ og að það sé „þöggun“ þegar amast er við henni.“

Þessi fullyrðing er röng og beinir umræðunni frá kjarna málsins. Ég er ekki að réttlæta ómálefnalegt skítkast. Það sem ég er að segja er að þeir sem aðhyllast pólitískan rétttrúnað vilja skilgreina allt sem hatursorðræðu sem ekki samræmist þeirra skoðunum í þeim tilgangi að þagga niður í umræðunni.

Ef til vill hefur þessi setning í grein minni farið framhjá Guðmundi þar sem segir: „Einstaklingurinn hefur rétt og kröfu til að gagnrýna allt með því að leggja það í dóm skynseminnar og vísindalegrar nálgunar.“ Ég get ekki lesið út úr þessari setningu að þarna sé verið að hvetja til hatursorðræðu.

Pólitískur rétttrúnaður hefur ekkert með háttvísi og mannasiði að gera eins og Guðmundur Andri virðist halda fram. Mér hefur stundum fundist að þeir einu sem stunda hatursorðræðu séu talsmenn pólitísks rétttrúnaðar með því að kalla alla þá rasista eða eitthvað sýnu verra, sem setja fram skoðanir sem eru ekki að þeirra skapi. Það eru slíkir orðaleppar sem leysa fúlan vind og hafa þann tilgang að þagga niður í fólki.




Skoðun

Sjá meira


×