Viðskipti innlent

Olíuverð lækkað um 11 prósent á síðastliðnum mánuði

Sæunn Gísladóttir skrifar
Olíuverð hefur lækkað um 13 prósent á síðastliðnum mánuði.
Olíuverð hefur lækkað um 13 prósent á síðastliðnum mánuði. NordicPhotos/Getty
Heimsmarkaðsverð á olíu hefur fallið skarpt á síðustu vikum og frá því um miðjan apríl hefur verðið lækkað um 11 prósent. Eftir miklar lækkanir að undanförnu tók olíuverð kipp upp á við í gær þegar það hækkaði um meira en þrjú prósent og fór verð á tunnu af Brent-Norðursjávarolíu yfir 50 dollara.

Olíuverðslækkun síðustu vikna hefur víðs vegar áhrif hér á landi. Meðal annars spáir greining Arion banka því að hún verði ein af rökunum fyrir því að vextir verði lækkaðir á stýrivaxtafundi í næstu viku.

„Þetta hefur áhrif. Olían er mikilvæg í aðföng og aðfangakostnað fyrir fyrirtæki. Þegar olía lækkar í verði getur það hjálpað fyrirtækjum að taka á launahækkuninni sem er að koma inn í maí. Þetta kemur beint inn í vísitölu neysluverðs og hefur þar áhrif til lækkunar og heldur þannig aftur af verðbólguþrýstingi. Þannig að það eru bein og óbein áhrif sem við gætum séð,“ segir Erna Björg Sverrisdóttir, sérfræðingur í greiningardeild Arion banka.

Að hennar mati gæti lækkunin hjálpað útgerðinni. „Ég myndi halda það. Olían er mikilvægur kostnaður hjá útgerðinni. Vissulega ætti þetta því að hjálpa til og vera kærkomið þegar við erum að sjá svona mikla gengisstyrkingu,“ segir Erna Björg.

Á meðal þeirra sem hafa notið góðs af lækkun olíuverðs að undanförnu eru flugfélög á borð við í Icelandair Group. Fyrir utan ágætis uppgjör á fyrsta ársfjórðungi og tölur um mikinn vöxt í farþegafjölda í apríl hefur þróun olíuverðs ráðið hvað mestu um að gengi bréfa félagsins hefur hækkað um 22 prósent á síðastliðnum mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×