Enski boltinn

Gæti misst af enn einum bikarúrslitaleiknum hjá Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Oxlade-Chamberlain meiddist í gær.
Alex Oxlade-Chamberlain meiddist í gær. Vísir/Getty
Alex Oxlade-Chamberlain fór meiddur af velli í gærkvöldi þegar Arsenal vann 2-0 sigur á Southampton en Skytturnar héldu þá Meistaradeildardraumum sínum á lífi.

Oxlade-Chamberlain tognaði aftan í læri og yfirgaf völlinn eftir aðeins 36 mínútna leik. Nú eru aðeins sextán dagar í bikarúrslitaleikinn á móti Chelsea og sé tognunin alvarleg þá gæti Oxlade-Chamberlain misst af leiknum á Wembley.

Það sem gerir þá staðreynd enn dapurlegri fyrir Uxann er að hann hefur misst af tveimur bikarúrslitaleikjum hjá Arsenal á síðustu árum.  Telegraph segir frá.

Oxlade-Chamberlain var meiddur í bikarúrslitaleiknum 2014 og komst ekki í byrjunarliðið í úrslitaleiknum árið síðar. Hann fékk reyndar að koma inná á 90. mínútu í þeim leik þegar Arsenal vann 4-0 sigur á Aston Villa.

„Þetta er tognun aftan í læri en við vitum ekki hversu slæmt þetta er. Ég veit ekki hvernig verður með bikarúrslitaleikinn. Hann labbar eðlilega og var frekar stífur en eitthvað annað. Þetta er kannski meira þreyta en það er erfitt að dæma þetta svona skömmu eftir að þetta gerist,“ sagði Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal eftir leikinn í gær.

Oxlade-Chamberlain fer í rannsóknir á næstu tveimur sólarhringum og þá kemur í ljós hvort að hann verði lengi frá eða ekki.

Oxlade-Chamberlain hefur verið að spila sem hægri vængbakvörður að undanförnu en var líka inn á miðjunni á þessu tímabili sem er hans óskastaða.

Hans framtíð í Arsenal er líka í uppnámi enda Oxlade-Chamberlain  ekki búinn að endurnýja samning sinn sem rennur út á næsta ári. Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, vill fá hann í sumar og Þjóðverjinn vill nota Oxlade-Chamberlain meira inn á miðjunni. Það gæti hljómað spennandi fyrir þennan 23 ára gamla leikmann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×