Enski boltinn

Aðeins Henry og Bergkamp gerðu betur í fyrstu hundrað leikjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexis Sánchez fagnar í gærkvöldi.
Alexis Sánchez fagnar í gærkvöldi. Vísir/Getty
Alexis Sánchez lék í gærkvöldi sinn hundraðasta leik fyrir Arsenal í ensku úrvalsdeildinni og hélt upp á það með því að skora annað marka liðsins í 2-0 sigri á Southampton.

Þetta var 20 deildarmark Sánchez á tímabilinu og jafnframt 49. mark hans fyrir Arsenal í ensku úrvalsdeildinni en hann er að klára sitt þriðja tímabil með liðinu.

Alexis Sánchez er 28 ára Sílemaður sem kom frá Barcelona til Arsenal í júlímánuði 2014. Hann hefur síðan verið í algjöru lykilhlutverki í liðinu og einn af bestu mönnum deildarinnar.

Alexis Sánchez hefur alls átt þátt í 70 mörkum liðsins í þessum fyrstu hundrað leikjum sínum og það hafa aðeins tveir leikmenn félagsins gert betur.

Frakkinn Thierry Henry kom að 81 mark í fyrstu hundrað deildarleikjum sínum og Hollendingurinn Dennis Bergkamp (71) átti þátt í einu marki meira en Sánchez (70).

Thierry Henry og Dennis Bergkamp eru tveir ástsælustu leikmenn í sögu Arsenal en þeir urðu báðir enskir meistarar með félaginu og það oftar en einu sinni. Alexis Sánchez hefur hinsvegar aldrei verið nálægt því að vinna enska titilinn á sínum þremur tímabilum í London.

Fjórði á listanum er síðan Ian Wright sem kom með beinum hætti að 65 mörkum í fyrstu 100 deildarleikjum sínum með félaginu. Það er hægt að sjá topplistann hér fyrir neðan en þar hafa allir unnið enska meistaratitilinn nema Alexis Sánchez.







Framtíð Alexis hjá Arsenal er í óvissu en hann hefur verið stöðugt orðaður við önnur lið í ensku úrvalsdeildinni og eru lið Manchester City og Chelsea þar efst á blaði.

Samningur Sánchez rennur út 30. júní 2018 en hann hefur ekki viljað skrifað undir nýjan samning við Arsenal sem hefur ýtt undir allar sögusagnirnar að hann sé á förum frá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×