Íslenski boltinn

Jeppe biður um sölu frá Keflavík vegna áhuga samherja sinna á Eurovision

Jeppe Hansen á sér ekki uppáhaldslag í Eurovision.
Jeppe Hansen á sér ekki uppáhaldslag í Eurovision. vísir/anton brink
Danski framherjinn Jeppe Hansen, leikmaður Keflavíkur í Inkasso-deildinni í fótbolta, vill komast frá Keflavík hið snarasta vegna áhuga samherja sinna á Eurovision.

Jeppe grínast með þetta á Twitter-síðu sinni þar sem hann biður um að vera settur á sölulista þar sem að allir sem koma að liðinu eru uppteknir í kvöld að horfa á seinna undanúrslitakvöldið í Eurovision.

„Ég ætla að skila inn félagaskiptabeiðni. Ég get ekki spilað fyrir félag þar sem þjálfarinn og allir leikmennirnir eru að horfa á Eurovision,“ segir Jeppe í gríni á Twitter og grenjar úr hlátri ef marka má emoji-kallinn sem fylgir tístinu.

Daninn, sem áður spilaði fyrir Stjörnuna og KR í Pepsi-deildinni, skoraði glæsilegt mark í sínum fyrsta leik fyrir Keflavík í Inkasso-deildinni síðasta föstudag en margir spá honum markakóngstitlinum í deildinni í sumar.

Það er því kannski betra fyrir samherja hans og þjálfara að skipta um stöð áður en Jeppinn keyrir í eitthvað annað lið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×