Innlent

Skólum gert að greiða fyrir efni frá RÚV

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ríkisútvarpið býður einstaklingum, fyrirtækjum og samtökum að kaupa efni. Skólar geta ekki fengið það endurgjaldslaust.
Ríkisútvarpið býður einstaklingum, fyrirtækjum og samtökum að kaupa efni. Skólar geta ekki fengið það endurgjaldslaust. vísir/pjetur

„Það kæmi sér afar vel í íslenskukennslu að hafa aðgang að efni eins og Kiljunni, Landanum, Orðbragði og þessum þáttum,“ segir Berglind Rúnarsdóttir, íslenskukennari við Borgarholtsskóla. Hún er ósátt við það að Ríkisútvarpið, sem er útvarp í almannaþágu, láti framhaldsskólunum ekki sjónvarpsefni í té endurgjaldslaust.

„Þetta myndi nýtast í kennslu en þetta þarf að kaupa alltaf sérstaklega af RÚV. Jafnvel þótt þú sért bara að kaupa hluta úr þætti þá er það selt í hverju tilfelli fyrir sig,“ segir Berglind. Hún segir fleiri íslenskukennara taka undir með sér. „Okkur íslenskukennurum þykir þetta svolítið gamaldags. Og okkur vantar öll vopn í baráttunni fyrir því að halda þessu tungumáli á lífi – bara aðeins til að lífga upp á kennsluna,“ segir Berglind.

Berglind segir að íslenskukennarar í Borgarholtsskóla hafi skrifað menntamálaráðuneytinu bréf vegna þessa. Þar hafi þau svör fengist að ráðuneytið myndi ekki hlutast til vegna þessa. Kennararnir þyrftu að eiga um þetta mál við Ríkisútvarpið. Berglind segir engan vafa leika á því að kennarar myndu nýta sér efni frá RÚV meira við kennslu ef þeir fengju það endurgjaldslaust.

„Ekki nokkur spurning.“ Á vef RÚV kemur fram að einstaklingar geta fengið mynd- eða hljóðbrot til einkanota fyrir 2.500 til 4.500 krónur. Fyrirtæki eða samtök geta fengið mynd- eða hljóðbrot til sýningar fyrir 20 þúsund krónur. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira